Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:13]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Já, ég er kominn aftur til að lesa aðeins upp úr umsögn Kvenréttindafélags Íslands, en félagið hefur bent á að skortur hafi verið á jafnréttismati við gerð þessa frumvarps. Fyrir ykkur sem eruð að byrja að hlusta þá er gerð krafa um það samkvæmt jafnréttislögum, handbók Jafnréttisstofu og stjórnarsáttmála að við skoðum við gerð frumvarpa hvaða áhrif þau hafa á kynin og hvort þau hafi mismunandi áhrif á kynin — fyrir fram. Við viljum ekki bíða eftir því að vera búin að setja lögin til að athuga það — æ, æ, þetta hefur slæm áhrif á allar konur í landinu — það er nákvæmlega það sem við viljum losna við. Við viljum finna þá hluti fyrr og það er hreinlega þannig að ferlinu sem við höfum sett okkur er ekki fylgt, enda segir í umsögn Kvenréttindafélags Íslands, með leyfi forseta:

„Þá kemur einnig fram í stjórnarsáttmálanum að „lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga verða tekin til endurskoðunar með það að markmiði að rýmka ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku og auka skilvirkni með einföldun ferla.“ Kvenréttindafélag Íslands getur ekki séð að með þessu frumvarpi sé verið að rýmka ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa, heldur þvert á móti, enda útilokar 7. gr. frumvarpsins, um breytingu á 37. gr. laganna, fólk sem á rétt í öðrum ríkjum eða hefur tengsl við önnur ríki og þrengir sú breyting því enn meira að fólki sem leitar hér dvalarréttar.

Stjórnarsáttmálinn tekur einnig fram að „þá verði þeim sem hér fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið veitt undanþága frá kröfu um atvinnuleyfi. Haft verður samráð við aðila vinnumarkaðarins í þessari vinnu.“ Kvenréttindafélag Íslands telur að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér gefi ekki til kynna að það sé unnið á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þá sérstaklega að lögregla geti gert umsækjendum um alþjóðlega vernd skylt að gangast undir heilbrigðisskoðun og læknisskoðun, enda brjóti það á friðhelgi einkalífs fólks sem tryggð er í 71. gr. stjórnarskrár Íslands, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá tekur Kvenréttindafélagið undir umsögn ASÍ þar sem tekið er fram að samráð við vinnumarkaðinn hafi ekki farið fram eins og hefði átt að vera gert og er því skýrt að ekki var haft samráð við samfélagið við gerð þessa frumvarps.

Kvenréttindafélag Íslands telur augljóst að löggjöf um atvinnuréttindi og dvalarstöðu útlendinga muni koma til með að hafa mikil áhrif á líf fólks og að munur sé á stöðu karla og kvenna í málaflokknum. Þörfin á að framkvæma jafnréttismat í þessu tilviki ætti því að vera augljós og eðlilegt að farið sé að lögum í þeim efnum.“

Forseti. Hér er ein af mörgum umsögnum sem segir að ákvæði þessa frumvarps brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu. Ég segi það aftur, af því að ég er ekki viss um að hv. stjórnarþingmenn hafi heyrt þetta, að frumvarp þetta „brjóti […] á friðhelgi einkalífs fólks sem tryggð er í 71. gr. stjórnarskrár Íslands, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“

Ég veit ekki betur en að þeir hv. þingmenn sem hér sitja þurfi að skrifa undir drengskapareið um það að verja stjórnarskrána. Samt ætla hv. þingmenn að láta ábendingu um brot á mannréttindasáttmála og stjórnarskrá í frumvarpi frá dómsmálaráðherra, undir stjórn hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur, sem vind um eyru þjóta.

Virðulegi forseti. Ég óska þess að komast aftur á mælendaskrá til að halda áfram með umsögnina.