Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Aðeins meira um hversu mikið fjármálaráðherra var misboðið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki oft verið í minni hluta en nokkrum sinnum og á mjög áhugaverðan hátt. Á kjörtímabilinu 2009–2013, þar var t.d. stjórnarskrármálið. Þá fóru Sjálfstæðismenn sannarlega að spjalla um ýmislegt — og í ýmsum öðrum málum, ekki bara í umræðum um stjórnarskrármálið sjálft heldur í öðrum málum sem voru á dagskrá, svona til að hleypa því ekki framar á dagskrá. Það sem var áhugavert við stjórnarskrármálið var að það fór nokkrum sinnum til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd meðan á 2. umr. stóð og 2. umr. stóð meira að segja yfir í nokkra mánuði. Mig minnir að 2. umr. hafi byrjað í lok janúar og ekki verið kláruð fyrr en í júní. Var það ekki? Ég er að reyna að muna dagsetningarnar, ætli það hafi ekki verið í mars, tveimur mánuðum seinna eða svo. Það voru einhverjir tveir kaflar þar sem var gerð pása í 2. umr. og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði um þá á nokkrum fundum, alveg sama og við erum að biðja um hérna; að við fáum að sjá hvað stjórnarliðar, sumir, ekki allir, eru að hugsa hvað breytingartillögur varðar. Kannski verður meiri hluti um þær breytingartillögur, kannski ekki meðal flokks dómsmálaráðherra sem hefur engan áhuga á breytingartillögum, en kannski verða hinir í meiri hlutanum sammála breytingartillögum minni hluta ríkisstjórnarinnar og úr verður meiri hluti. Það er lýðræðislegt. Þetta getur líka virkað. Það hefur gerst tvisvar á undanförnum árum að það var ekki meiri hlutinn sem kom máli í gegn heldur minni hlutinn. Rafrettumálið hérna um árið var samþykkt á einu atkvæði. Ef minni hlutinn hefði ekki verið með hefði málið ekki farið í gegn. Þetta varðaði aðgengi þeirra sem voru með rafrettur á veitingastöðum og svoleiðis. Svo var það þungunarrofið. Ef minni hlutinn hefði ekki verið til staðar þar hefði það verið fellt.

Við skulum því átta okkur á því að eitthvað sem heitir hérna meiri hluti og minni hluti getur alveg breyst eftir málum. Það er ekkert fast í hendi með það. Það hefur oft verið orðað þannig að ef einhver úr stjórnarflokkunum fer gegn atkvæðaskipunum þá farist himinn og jörð og stjórnarsamstarfið springi í loft upp o.s.frv. En það gerði það ekki í þessum tveimur málum. Heimurinn fórst ekki þótt einhverjir úr stjórnarliðinu greiddu atkvæði með og aðrir á móti, merkilegt nokk. Hver veit nema einmitt þessar breytingartillögur, sem sumir í stjórnarandstöðunni hafa áhuga á en ekki allir, séu í rauninni með meiri hluta? Við vitum það ekki fyrr en við fáum að sjá þessar breytingartillögur og eina leiðin til að fá að sjá breytingartillögurnar er til að byrja með að þessir stjórnarliðar sýni okkur þær, kannski opinberlega og óháð því hvort málið fer til nefndar eða ekki. Þá getum við alla vega farið að ræða þær strax hérna. Að sjálfsögðu væri betra að gera það á nefndarfundi af því að þar viljum við kalla til umsagnaraðila til þess að útskýra fyrir okkur tæknilega séð hvort orðanna hljóðan virki í raun og veru eins og hún lítur út. Þetta er flókið kerfi og eitt „og“ sem fer á rangan stað, einn stafliður sem fer á rangan stað eða, eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir minntist á áðan, ein röng tilvísun getur gjörsamlega breytt öllu. Það munaði um þessa 8 milljarða sem aldraðir voru skertir um hérna um árið af því að það var tilvísun í ranga grein. 8 milljarðar sem aldraðir voru skertir um afturvirkt en sem betur fer féll dómur sem sagði: Það er bannað að vera með afturvirk lög með skerðingum. Þannig að það vannst til baka.

Við erum í þeirri stöðu að við erum með dæmi um það þegar ríkisstjórnarflokkarnir hafa haft rangt fyrir sér. (Forseti hringir.) Við erum með dæmi um það þegar þeir kjósa ekki eftir flokkslínunni og himinn og jörð fórust ekki. Við erum með dæmi um (Forseti hringir.) þetta málþóf frá Sjálfstæðisflokknum sem þau ásaka okkur einhvern veginn um og er alveg gríðarlega misboðið. Mér finnst það rosalega skrýtið.