Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:57]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Hér fyrir framan mig er frumvarpið, í tölvunni minni vissulega, en við fyrstu sýn — ég kom inn á það í fyrstu ræðu minni hér í dag að 3. gr. valdi mér miklum áhyggjum, hún gerir það, og það er líka fjöldi umsagnaraðila sem gera athugasemdir við nákvæmlega þessa grein frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: um er að ræða endurtekna umsókn skv. 35. gr. a.“

Þessi breyting hljómar eins og hún sé smávægileg þegar maður les hana svona upp eina og sér og samhengislaust, en þessi breyting felur í sér þannig lagabreytingar að umsagnaraðilar, ég myndi kannski segja í kringum 14–15 umsagnaraðilar sem hafa sent inn umsögn varðandi þetta frumvarp, hafa gert athugasemd við nákvæmlega þessa grein. Þetta er m.a. ein af þeim greinum sem umsagnaraðilar gerðu athugasemd við að gæti mögulega ekki samrýmst stjórnarskrá. Ég þarf að fá að taka undir með þeim því að það er grafalvarlegt mál ef þetta samræmist ekki stjórnarskrá. En nóg um það. Það er rosalega skrýtið að vera ein hér inni í þingsal og vera að tala um eitthvað sem snertir réttindi borgara og snertir stjórnarskrárvarin réttindi. Flokkurinn sem lagði fram þetta frumvarp er ekki einu sinni með okkur inni í þingsal.

Ég ætla tala næst um 6. gr., um brottfall þjónustu. Þar hefur komið fram að það gæti mögulega ekki samræmst 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 65. gr. stjórnarskrárinnar, jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er náttúrlega grafalvarlegt og það skýrir sig bara sjálft. 76. gr. stjórnarskrárinnar minnir mig að sé um að öllum skuli vera veitt aðstoð vegna sjúkleika og alls konar annars. Allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu, það er meginefnið í þeirri lagagrein. Að fella niður einhvers konar grunnþjónustu sem fólk í neyð reiðir sig á til þess eins að hrekja það úr landi er auðvitað grafalvarlegt brot á mannréttindum, grafalvarlegt brot á réttindum sem varða við stjórnarskrá. Hvernig þetta fer mögulega gegn 65. gr. — það er jafnræðisreglan, það á að koma jafnt fram við alla, óháð kynþætti, uppruna, þjóðerni; alls konar upptalning. Það að svipta einungis umsækjendur um alþjóðlega vernd þessum rétti, grunnþjónustunni sem þau eiga nú þegar rétt á samkvæmt núverandi lögum um útlendinga, er auðvitað bara hrein og bein mismunun.

Við þurfum að horfa líka á ásetninginn á bak við setningu þessara laga og þá sérstaklega þessa ákvæðis. Það er auðvitað bara til þess að hrekja þau úr landi. Það að svipta fólk grunnþjónustu, þá húsnæði og heilbrigðisþjónustu og kennitölu og allt það, er gert ef einstaklingurinn neitar að fara sjálfviljugur úr landi, þannig að ásetningurinn á bak við þetta er mjög skýr. Það er til að hrekja þessa manneskju úr landi því að hún er víst ekki velkomin hér. Ef við höfum ekki pláss eða ef við höfum ekki vilja til að taka á móti þér þá áttu bara ekki skilið neitt, átt ekki skilið heilbrigðisþjónustu, átt ekki skilið húsnæði. Það sem ég held að gleymist mjög oft í umræðunni er að húsnæði, að hafa þak yfir höfuðið, er grundvallarmannréttindi. Það að geta leitað sér heilbrigðisaðstoðar ef þú ert að glíma við einhvers konar veikindi, hvort sem þau eru geðræn eða líkamleg, það eru líka grundvallarmannréttindi og það er líka eitthvað sem er kveðið á um í stjórnarskrá. Þetta er bara grafalvarlegt lagaákvæði. Það er grafalvarleg þróun ef við lögfestum þetta.