Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:35]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég ætla að vinda mér í næsta ákvæði í þessu frumvarpi sem er 6. gr. 6. gr. er eitt af þeim ákvæðum sem 1. minni hluti hefur lagt til að verði fellt brott og það ákvæði frumvarpsins sem mesta gagnrýni hefur fengið og sem hvað flestar umsagnir hafa verið neikvæðar um og lýst yfir áhyggjum af. Í 6. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:

a. 8. mgr. orðast svo:

Útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd nýtur áfram réttinda samkvæmt þessari grein þar til hann hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi. Að þeim tímafresti loknum falla réttindin niður. Þó er ekki heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Í þeim tilvikum þegar umsækjandi er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis eða kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsóknin hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus falla réttindin þó niður þegar Útlendingastofnun hefur synjað umsókn hans um alþjóðlega vernd. Jafnframt eiga undanþágur 3. málsl. ekki við um þau mál.“

Það er „skemmtilegt“ að hugsa til þess að þegar þessi breyting var fyrst lögð til voru ekki þessar undanþágur fyrir börn og heimilisfólk og barnshafandi fólk og veikt fólk og fatlaða einstaklinga og annað sem kannski lýsir, hvað eigum við að segja, hugarfarinu að baki þessu frumvarpi. Þessu var skellt þarna inn eftir gríðarlega harða gagnrýni, enda er þessu ákvæði ekki beint gegn þeim einstaklingum sem þarna eru taldir upp. Ég þykist vita, eftir umfjöllun um málið í allsherjar- og menntamálanefnd, að þessu ákvæði sé fyrst og fremst beint gegn þeim hópi sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var að tala um hérna áðan en einungis hluta þess hóps. Það eru karlar á ákveðnum aldri frá Írak sem hafa dvalið hérna, um nokkurra ára skeið jafnvel, eftir að fengið synjun vegna þess að þeir telja sér ekki fært að snúa aftur til heimaríkis. Íslensk stjórnvöld eru því ósammála, finnst bara ekkert mál að þeir drífi sig aftur til Íraks. Það er nefnilega oft þannig að einstaklingar telja sig vera í hættu jafnvel þótt stjórnvöld fallist ekki á það. Það gerist líka að stjórnvöld taki rangar ákvarðanir. Þar vakna einmitt hugsanir varðandi 7. gr. frumvarpsins sem ég ætla ekki að vinda mér í strax, sem ég hef einna mestar áhyggjur af, eins og ég hef lýst yfir, sem skerðir einmitt rétt fólks til að fá ranga ákvörðun leiðrétta.

Varðandi 6. gr. þá snýst þetta um það að svipta fólk þjónustu, sem er gríðarlega lítil, það er varla hægt að kalla það þjónustu, en eitthvað verður að kalla það, í því skyni að knýja fólk til að yfirgefa landið. En það sem við sáum glöggt á erindi sem við sáum í Háskóla Íslands fyrr í dag, þar sem var verið að kynna skýrslu Rauða krossins um stöðu fólks í svokallaðri umborinni dvöl, er að þessir einstaklingar eru í gríðarlega slæmri stöðu. Þau upplifa sig í fangelsi, margir orðuðu það þannig, þau njóta gríðarlega lítilla réttinda, búa í óviðunandi húsnæði og sjá enga von en samt fara þau ekki úr landi, samt fara þau ekki heim. Af einhverjum ástæðum fara þau samt ekki heim. Það er því misskilningur sem þetta frumvarp er byggt á, að það að svipta þau þessum gríðarlega litlu réttindum muni knýja þau til að fara heim.

En nú er ég fallin á tíma og ég mun halda áfram að ræða 6. gr. í næstu ræðu minni og væntanlega þeirri þarnæstu líka og bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.