Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Forseti skammtar mér svo stuttan tíma að ég náði ekki alveg að ljúka því sem ég vildi fjalla um í síðustu ræðu þannig að ég ætla aðeins að halda áfram að tala um stöðu hinsegin fólks á flótta sem Samtökin '78 gera að sérstöku umtalsefni í umsögn sem þau sendu þinginu 25. janúar sl. Ég var búinn að fjalla um það hvernig 15. gr. frumvarpsins kemur harkalega niður á því fólki sem hefur verið sótt til landsins í rauninni sem kvótaflóttafólk en væntanlega bara örfáum einstaklingum í þeim hópi. Grimmúðin í þessu ákvæði verður þeim mun skýrari þegar maður áttar sig á því hversu fáir einstaklingar það eru sem þetta hefur gríðarleg áhrif á. Hér er verið að setja lög sem snerta tvo, þrjá einstaklinga, fólk sem kannski heimtir maka sinn úr helju, hélt að hann væri dáinn en svo bara er hann á lífi og þú ert ekki lengur einstæð ekkja heldur áttu manninn þinn aftur en þú mátt ekki fá hann af því að íslenska ríkið segir nei. Eða samkynhneigði karlmaðurinn sem flýði ofsóknir og komst til lands sem stundum hreykir sér af því að vera hinsegin paradís. Þegar hann vinnur upp traustið og sjálfstraustið til að segja frá því að heima eigi hann maka í felum segir þetta ákvæði: Nei, við ætlum bara að leyfa honum að vera úti í landinu þar sem ofsóknir eru það sem mætir hinsegin fólki.

En skoðum síðan hinn hóp flóttafólks sem býr á Íslandi, fólkið sem kemur á eigin vegum, fólkið sem kemur hingað og sækir um alþjóðlega vernd. Þetta er hópur sem Samtökin '78 benda í umsögn sinni á að leiti oft til samtakanna vegna þess að hann segi farir sínar ekki sléttar af samskiptum við stjórnvöld. Stjórnvöldin í hinsegin paradísinni rengja nefnilega gjarnan frásögn einstaklinga sem segjast þurfa vernd vegna hinseginleika. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Samtökin '78 vilja einnig benda á að einstaklingar sem leita til samtakanna hafa ítrekað þurft að sannreyna sinn hinseginleika og sum hafa þurft að ganga ansi langt til að reyna að sýna fram á það að þau vissulega tilheyri þeim hópi.“

Þau fara ekki yfir það í umsögninni hversu langt fólk þarf ganga, enda spyr ég: Hvernig sannarðu hinseginleika? Hvaða gögn áttu að leggja fram? Er þetta eins og í Áramótaskaupinu þar sem persónan sem Sigurjón Kjartansson lék bað einstakling um að sanna hinseginleika sinn með því að kyssa sig? Það er náttúrlega skopstæling á stöðunni en ekkert mikið fáránlegra. Fólk er beðið um að leggja fram nokkrar myndir eða sýna fram á einhverja skjalfesta staðfestingu á því að fólk sé í t.d. sambandi við einstakling af sama kyni. Fólk kemur kannski frá landi þar sem það að sjást saman, hvað þá að eiga mynd af sér saman, hvað þá að kyssast og hvað þá að það náist mynd af því getur allt saman verið stórhættulegt. Enda segja samtökin í umsögn sinni að þessi vinnubrögð séu ófagleg og til þess fallin að brjóta á mannréttindum þessara einstaklinga. Ekkert annað.

Það er kannski eðlilegt að stjórnvöld sem koma svona fram við fólkið sem sækir um alþjóðlega vernd séu bara ekkert hótinu skárri gagnvart fólkinu sem kemur hingað sem kvótaflóttafólk á forsendum hinseginleika síns. Að landið sem vill geta komið sér efst á öll regnbogakort heimsins, vill geta sýnt að við séum best í heimi í því að vera með framsækin lög í málefnum hinsegin fólks, er bara alls ekki að sýna það andlit gagnvart fólki sem kemur hingað sem flóttafólk.