Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson rifjaði upp pirringskast fjármálaráðherra hér fyrr í dag þar sem ráðherra var misboðið. Það misbauð ráðherra að þingmenn Pírata töluðu fyrir því að þetta frumvarp gengi til nefndar í 2. umr. frekar en að beðið væri þess að geta sent það til nefndar milli 2. og 3. umr. Það er náttúrlega hægt að misbjóða ýmislegt. Það misbýður mér t.d. að hæstv. dómsmálaráðherra hafi nýtt Úkraínustríðið til að þrýsta þessu máli áfram. Hann var mættur í fjölmiðla 25. febrúar síðasta árs, degi eftir innrás Rússa í Úkraínu var dómsmálaráðherra mættur til að segja að það þyrfti að rýma til fyrir úkraínsku flóttafólki. Þess vegna þyrftum við að vera duglegri að sturta úr landi fólkinu sem fyrir væri. Til þess fannst honum þurfa þetta frumvarp. Mér var misboðið að verða vitni að ráðherra í ríkisstjórn Íslands misnota stríðsástand með þessum hætti. Ég held að okkur misbjóði líka mörgum hversu einbeittur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar er í að hunsa umsagnir sérfræðinga um málið. Það hefur kannski snert minna við okkur á fyrri stigum vegna þess að aðilinn sem hefur hunsað umsagnirnar hefur verið dómsmálaráðherra, hver svo sem hann hefur verið hverju sinni vegna þess að þeir eru orðnir æðimargir í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Fæstir dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins virðast verða langlífir í því embætti en allir hafa þeir lagt þetta mál fram á einhvern hátt og fengið umsagnir á einhverju formi og hunsað þær að mestu leyti. Ég held að sérfræðingunum sem verða fyrir þeirri hunsum, ég held að fólkinu sem fjallað er um í þessu frumvarpi, ég held að okkur sem viljum gera útlendingalögin betri, ég held að okkur sé öllum misboðið.

Svo held ég að það hljóti að misbjóða okkur sem viljum sterkt Alþingi, trausta og góða umræðu hér í þingsal, að meiri hlutinn boði breytingartillögur á frumvarpinu en neiti segja okkur hverjar þær eru. Þetta eru einhverjar ótilgreindar breytingartillögur. Stundum hljómar það eins og það sé á grundvelli einhverra nýrra upplýsinga þótt allt sem liggi fyrir í málinu hafi legið fyrir við 1. umr. og umsagnalotuna sem farið var í gegnum áður en málið var afgreitt til 2. umr. af þessum sama meiri hluta. Aftur á móti segir dómsmálaráðherra að engu þurfi að breyta í frumvarpinu, engu þurfi að breyta frá því sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur lagt til nema kannski einhverju stafsetningarsmotteríi, einhverju málfarslegu, en efnislega þurfi ekki að breyta neinu. Þetta misbýður okkur sem viljum sjá pólitísku umræðuna eiga sér stað á grundvelli einhvers. Það er varla hægt að segja að það þurfi að vera á grundvelli bestu upplýsinga, það þarf bara að vera á grundvelli upplýsinga um það hvað það er sem fólk vill gera. Það misbýður okkur að þessar breytingartillögur séu boðaðar óljósar og inn í framtíðinni frekar en að meiri hluti allsherjar menntamálanefndar taki á sig rögg, kalli málið til nefndar áður en 2. umr. lýkur, afgreiði það síðan eftir atvikum út með framhaldsnefndaráliti og breytingartillögum, ef það er í alvöru það sem þau vilja gera. Þá getum við tekið þessa umræðu á grundvelli einhvers annars en þess að við séum að giska á það hvað það er sem meiri hlutinn gæti viljað breyta í málinu.

Já, það er nefnilega margt sem er hægt að misbjóða í þessu máli. Það að Píratar vilji senda málið til nefndar þannig að hægt sé að ræða það á grundvelli þess hvernig það eigi í alvöru að vera er ekki eitt af því og bendir til þess að hæstv. fjármálaráðherra hafi kannski meira verið í einhverjum leikaraskap að láta eins og sér væri misboðið (Forseti hringir.) því að við höfum boðið margar leiðir til að ljúka þessari umræðu þannig að ekki þurfi að teppa þingið mikið meira, m.a. með dagskrártillögu sem allir stjórnarliðar felldu. Við vildum ekkert standa í þessari umræðu hér í dag.