Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:31]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég er bara búin að vísa til einnar umsagnar í smáatriðum en ég held að það sé rosalega mikilvægt að við förum í gegnum helstu umsagnirnar sem hafa borist frá sérfræðingum sem lýsa yfir þungum áhyggjum hvað varðar þetta frumvarp. Eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur komið inn á er Rauði krossinn á Íslandi mikilvægur umsagnaraðili, enda sérfræðingar í þessum málaflokki, og hefur ítrekað gagnrýnt þetta frumvarp og atriði sem varða þetta frumvarp eins og t.d. skort á samráði. Mér sýnist og heyrist og ég trúi því mjög vel að það hafi ekki verið haft samráð við viðeigandi aðila sem starfa í þessum málaflokki og eru þar af leiðandi sérfræðingar og hafa sérþekkingu. Það var sem sagt ekkert samráð við þessa aðila við gerð þessa frumvarps og það sést auðvitað á orðalaginu í frumvarpinu og á lagaákvæðunum sem þetta frumvarp felur í sér.

Það hefur greinilega ekkert samtal átt sér stað og ég velti því bara fyrir mér — fyrsta frumvarpið um breytingu á útlendingalögum var lagt fram árið 2017, minnir mig. Nú er það lagt fram hér í fimmta skiptið, árið 2023. Það eru nokkur ár þarna á milli sem hæstv. dómsmálaráðherra eða þeir sem hafa verið í þessu embætti hefðu getað nýtt til þess að eiga einhvers konar samráð og samstarf við sérfróða aðila í þessum málaflokki til að búa til eitthvert frumvarp sem myndi nýtast öllum, ekki skerða réttindi fólks, og myndi auka skilvirkni í þessum málaflokki eins og viljinn er víst á bak við þetta. Þetta frumvarp skilar því miður ekki þeim niðurstöðum.

Annað sem mig langar að koma inn á sem Rauði krossinn á Íslandi hefur bent á er að frumvarp þetta veiti að einhverju leyti heimild til Útlendingastofnunar til að vanrækja rannsóknarskyldu sína. Það er bara rosalega alvarlegt enda er Útlendingastofnun stjórnvald og við allar stjórnvaldsákvarðanir ber stjórnvöldum að gæta þess að þau séu að taka upplýsta ákvörðun á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og að þau séu búin að rannsaka það sem þau eru að synja eða taka ákvörðun um. Þetta frumvarp felur í sér að Útlendingastofnun fái heimild til að sýna ekki frumkvæði við að kanna hvort einstaklingur kunni að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem er auðvitað rosalega mikilvægt þegar við erum að taka á móti og afgreiða umsóknir frá svona stórum og breiðum hópi sem kemur víða að. Það kemur reglulega upp að umsækjendur hafi ekki verið komnir með tíma í t.d. fyrstu heilbrigðisskoðun þegar þeir mæta í viðtalið sitt hjá Útlendingastofnun.

Í þessum skoðunum er verið að skima fyrir líkamlegum og sálrænum veikindum og auðvitað er nauðsynlegt við þessar aðstæður að bíða með ákvarðanatöku í þessu máli, hvort vernd verði synjað eða veitt, þangað til gögnin hafa borist og komin endanleg niðurstaða úr þessum skimunum. Það kemur frá heilbrigðisyfirvöldum þannig að það er skylda Útlendingastofnunar að hafa samráð og vera með samstarf við aðrar stofnanir sem er auðvitað rosalega mikilvægt, enda gefa upplýsingar úr sjúkraskrám oft tilefni til þess að skoða sögu umsækjenda frekar. Það getur leitt til fleiri rannsókna og fleiri greininga á andlegum og líkamlegum veikindum. Oft gerist það þannig að Útlendingastofnun fellst ekki á að veita umsækjendum frest til að afla slíkra gagna sem er auðvitað háalvarlegt mál.