Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég get glatt forseta með því að ég fer nú bráðum að komast að lokum mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem ég hef verið að fara í gegnum, en hún er grundvöllur að flestum þeim alþjóðasáttmálum sem liggja undir í þessu frumvarpi og við höfum verið að benda á, og ekki bara við heldur líka fjölmargir umsagnaraðilar, að er verið að brjóta. Þess vegna taldi ég að það væri ágætt hér, að kvöldi til, sér í lagi þar sem ég trúi því og vona að fulltrúar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd séu enn að hlusta — alla vega sá ég örfáa hv. þingmenn úr þeirri nefnd vera hér á vappi í húsinu, ekki marga en örfáa, og vonandi geta þá þeir hv. þingmenn komið einhverju af þessum upplýsingum á framfæri til hinna fulltrúanna í nefndinni sem þurfa kannski upprifjun á þessum reglum og mannréttindayfirlýsingunni.

En eins og ég hef sagt áður var mannréttindayfirlýsingin samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 10. desember 1948 og hún er samtals í 30 greinum. Við erum farin að nálgast lokin. Næst ætla ég að fjalla aðeins um 26. greinina. Í henni stendur, með leyfi forseta:

„Allir eiga rétt til menntunar. Skal hún veitt ókeypis, að minnsta kosti á grunnskóla- og undirstöðustigum. Grunnskólamenntun skal vera skylda. Starfsmenntun og sérmenntun skal standa öllum til boða og háskólamenntun vera öllum jafn frjáls á hæfnisgrundvelli.“

Já, frú forseti. Í þessari 1. mgr. 26. gr. er fjallað um að allir hafi rétt til menntunar. Það er því miður hins vegar þannig að við höfum heyrt ansi mörg dæmi, bæði í ræðum hér og í fréttum í fjölmiðlum, um að ekki sé verið að tryggja að börn á flótta hafi aðgang að menntun. Það er mikilvægt að átta sig á því að þessi réttindi eru hér í mannréttindayfirlýsingunni sem grunnur. Eins og við eigum eftir að sjá þegar ég fer að fara í mannréttindasáttmála Evrópu, og ég er að spá í að fara jafn vel í aðra sáttmála, heldur þessi réttur áfram inn í þá sáttmála.

Ég ætla ekki að fara yfir næstu greinar af því að þær eru ekki beint tengdar þessu frumvarpi. Ég vil passa að ég sé bara að fara í það sem málefnalegt er að sé tekið fram og ætla því að fara næst í 30. gr. eða lokagreinina áður en ég ætla síðan í næstu ræðu að byrja á að fjalla aðeins um mannréttindasáttmála Evrópu.

30. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ekkert í yfirlýsingu þessari má túlka á þann veg að nokkru ríki, hópi eða einstaklingi sé heimilt að aðhafast nokkuð það er stefni að því að gera að engu einhver þau réttindi eða frelsi sem hér hafa verið upp talin.“

Já, engu ríki, hópi eða einstaklingi er heimilt að aðhafast nokkuð sem stefnir að því að gera einhver þau réttindi eða frelsi sem hér hafa verið talin upp að engu. Það er nákvæmlega það sem þetta frumvarp er að gera, brjóta réttindi sem ég er búinn að fara hér í gegnum. Það er mikilvægt að við höfum það í huga þegar við höldum áfram.

En, frú forseti, mig langar að biðja um að mér sé bætt á mælendaskrá svo ég geti haldið áfram að fara í gegnum þessi grundvallarmannréttindaskjöl sem við búum hér við.