Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Áfram held ég í umfjöllun minni um 2. gr. frumvarpsins en þar er verið að fjalla um hvernig styttri málsmeðferðartími eða ætluð stytting á málsmeðferðartíma og aukin skilvirkni muni að öllum líkindum verða þess valdandi að geta flóttamanna til að sanna að þeir tilheyri hópi fólks í sérstaklega viðkvæmri stöðu verður skert verulega og þar af leiðandi möguleikinn á að fá sanngjarna og réttláta málsmeðferð á Íslandi.

Ég var einmitt á þeim stað í umsögn Rauða krossins, sem ég hef verið að vísa töluvert í hérna, þar sem Rauði krossinn, kannski með ákveðna bjartsýni að vopni, segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt athugasemdum frumvarpshöfunda er ákvæðinu ekki ætlað að breyta framkvæmd að öðru leyti en að stytta þann tíma sem ekki sé nýttur í málavinnslu og auka skilvirkni án þess að skerða réttarvernd aðila máls. Leggur Rauði krossinn til að verði núgildandi 15 daga kærufrestur afnuminn verði verklagi formlega breytt til þess að tryggja að Útlendingastofnun sinni rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 1. mgr. 25. gr. útlendingalaga og tryggja möguleika umsækjenda á því að leggja fram nauðsynleg gögn í máli sínu áður en ákvörðun er tekin.“

Ég ætlaði einmitt áður en tíminn hljóp frá mér í síðustu ræðu að útskýra hvers vegna mér finnst þetta vera bjartsýn nálgun hjá Rauða krossinum. Það er vegna þess að eins og staðan er núna þá ber Útlendingastofnun lagaleg skylda til að sinna rannsóknarskyldu sinni. Það er mjög skýrt í lögum um útlendinga að hún beri þessa lagalegu skyldu. Hér er Rauði krossinn að kalla eftir að því verklagi stofnunarinnar verði formlega breytt þannig að stofnunin fylgi lögum. Ég meina, auðvitað væri það væri frábært ef stofnunin myndi fylgja lögum en ég veit ekki hverju það breytir ef lögin eru skýr að breyta einhverju verklagi. Ég átt mig á það er kaldranalegt að segja: Jæja, ef þið ætlið að hafa þann litla tíma sem umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa til að reyna að sýna fram á að þeir eigi rétt á að fá vernd, getið þið þá alla vega beðið Útlendingastofnun um að fylgja lögum? Getið þið gert það einhvern veginn skýrara að Útlendingastofnun beri að fylgja lögum, nennið þið plís að gera það?

Mér finnst þetta eitthvað svo súrrealísk og firrt staða, virðulegi forseti Ef þið ætlið að breyta lögunum svona — sem við teljum að eigi eftir að koma niður á réttindum flóttafólks þó að það ætti í rauninni að vera þeim til hagsbóta, en miðað við framkvæmdirnar verður það ekki svo — nennið þið þá vinsamlegast að óska eftir því að Útlendingastofnun fylgi lögum og sinni rannsóknarskyldu sinni samkvæmt lögum? Þetta er rosalegt.

Og nú kemur einmitt að þessum kafla í umsögninni, sem ég er svo sem búin að lesa upp áður en ekki í þessu samhengi, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn hefur um árabil lagt áherslu á að aukin skilvirkni í málsmeðferð og stytting málsmeðferðartíma sé eitt mikilvægasta skrefið til úrbóta í málaflokknum og leggst félagið því ekki gegn því að kæra verði sjálfvirk af neinum öðrum ástæðum en þeim sem hér hefur verið gerð grein fyrir.“ — Sem er það að Útlendingastofnun sinnir ekki rannsóknarskyldu og leyfir umsækjendum heldur ekki að fá tíma til að afla nauðsynlegra gagna sem Útlendingastofnun ætti að afla.

Að lokum kemur fram um 2. gr., með leyfi forseta:

„Að lokum vill Rauði krossinn benda á að í nágrannaríkjum á borð við Svíþjóð og Noregi er kærufrestur í sambærilegum málum 21 dagur frá birtingu ákvörðunar, og er ekki að því vikið í frumvarpinu hvers vegna ekki er gert fyrir sambærilegum tíma hér á landi og í nágrannaríkjunum. Verði ákveðið að afnema kærufrest með þessum hætti leggur Rauði krossinn til að frestur til skila á greinargerð til kærunefndar verði 21 dagur í stað 14 daga.“

Rauði krossinn leggur til að bæta við einni viku sem mér finnst mjög hófleg beiðni og einmitt til samræmis við regluverkið annars staðar á Norðurlöndum, samanber þá frægu möntru stjórnarliða að það sé verið að samræma regluverkið svo mikið á Norðurlöndunum. En það er ekki hér þegar kemur að málsmeðferðarréttindum flóttafólks. Hér þarf ekki að samræma neitt.

Rauði krossinn kemur hér með mjög fína og vel skilgreinda breytingartillögu sem hefði verið upplagt fyrir meiri hlutann að taka til sín en það gerði hann samt sem áður ekki. Það er auðvitað mjög miður.