Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:58]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að vísa í umsögn Rauða krossins út af því að ég held að það séu bara rosalega góðar skýringar og líka á mannamáli. Í þeirri umsögn er kafli sem heitir Tillögur til úrbóta. Ég ætla bara að lesa hann upp orðrétt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sumir þeirra sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hafa í reynd verið strandaglópar hér á landi frá árinu 2017 og því dvalið hér í fimm ár. Þar sem enga lausn er að finna fyrir þessa einstaklinga í núgildandi lögum telur Rauði krossinn rétt að einhvers konar lausn verði tekin upp í frumvarp dómsmálaráðherra sem t.a.m. auðveldar þeim að komast á vinnumarkað og framfæra sér og sínum. Jafnframt leggur Rauði krossinn til að umsækjendur sem dvalið hafa hérlendis í ákveðinn tíma eftir að lokasynjun liggur fyrir í máli þeirra geti sótt um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvæði 51. gr. gildandi útlendingalaga heimilar þetta ekki og gerir kröfu um að umsókn um dvalarleyfi sé lögð fram áður en komið er til landsins. Í Svíþjóð geta umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni þó sótt um atvinnuleyfi án þess að þurfa að yfirgefa landið og telur Rauði krossinn rétt að litið verði til þess ákvæðis við breytingar á lögum um útlendinga. Yrði þá til staðar einhvers konar ljós í myrkrinu fyrir þá sem tilbúnir væru til að aðlagast íslensku samfélagi og setjast hér að.

Þá telur Rauði krossinn rétt að framangreindum umsækjendum verði gert auðveldara fyrir að öðlast bráðabirgðadvalar- og -atvinnuleyfi á meðan á dvöl þeirra stendur hér á landi svo þeir þurfi ekki að þiggja framfærslu frá íslenskum yfirvöldum. Reynsla Rauða krossins hefur verið sú að langflestir umsækjendur vilji vinna og framfæra sjálfum sér og fjölskyldu sinni í stað þess að vera á framfæri íslenska ríkisins.“

Virðulegi forseti. Ég held að það þurfi ekkert að útskýra þennan kafla í þessari umsögn nánar en ég ætla samt að gera það. Hér kemur skýrt fram að reynsla stærstu mannréttindasamtaka á Íslandi og stærstu forsvarsaðila flóttafólks á Íslandi sé sú fólk vilji vinna. Ég veit að það er algeng mýta, og það er bara ímyndin sem stjórnvöld hafa stuðlað að að dreifist um íslenskt samfélag, að þessir hælisleitendur, þetta flóttafólk, séu bara að þiggja peninga frá íslenska ríkinu. Ef þau fengju eitthvert val þá held ég að þau myndu miklu frekar vilja vinna. Að koma hingað í algerri neyð, það eitt og sér er svo erfitt, og það að aðlagast íslensku samfélagi án þess að stunda félagslíf og án þess að vera með vinnu er rosalega erfitt.

Það er talað um aðlögun flóttafólks hér á landi en fyrsta kynslóð innflytjenda, og þá kynslóðin sem kom árið 1990, það er bara mín reynsla, átti frekar auðvelt með að aðlagast Íslandi út af því að þau fengu strax vinnu við það sem þau lærðu í háskóla og lærðu þar af leiðandi tungumálið. Ég ætla að vera hreinskilin, forseti: Þetta eina námskeið sem er boðið upp á kennir fólki eiginlega ekki neina íslensku. Það að fara út á vinnumarkað, í starf sem fólk kann eitthvað í, er sérfrótt í, sem það lærði í háskóla, hjálpar rosalega mikið þegar kemur að aðlögun að íslensku samfélagi. Það að vera að sinna vinnunni sinni með öðrum Íslendingum, eða öðru fólki með öðruvísi bakgrunn og uppruna, stuðlar að rosalega jákvæðri aðlögun hjá fólki sem hingað kemur í leit að betra lífi. Þess vegna held ég að það sé bara tímabær breyting að veita þessu fólki atvinnuleyfi. Ég held að það myndi minnka álagið á kerfið rosalega mikið. Ef við prófum að veita þeim atvinnuleyfi þá gæti sýn Sjálfstæðisflokksins á flóttafólk breyst og viðhorfið gagnvart flóttafólki breyst úr því.

Eins og ég kom inn á í fyrstu ræðu minni í þessu máli gerist verðmætasköpun ekki án fólks og staðreyndin er sú að við erum allt of fá á Íslandi. Við getum varla staðið undir okkur sjálf. Krónan — ég þarf ekki að fara út í það. Ég er bara að segja: Okkur vantar fólk og þetta gæti alveg vera svarið.