Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef verið að fjalla ítarlega um 2. gr. frumvarpsins sem skerðir verulega málsmeðferðarréttindi flóttafólks. En mig langar í þessari ræðu að víkja að 4. gr. frumvarpsins sem hefur bein áhrif á rétt flóttafólks til friðhelgi einkalífs og á rétt þeirra til að njóta persónuverndar. Ég vil í því samhengi vísa í umsögn Rauða krossins um þetta mál en þar er einmitt fjallað um 4. gr. frumvarpsins. Á 4. bls. í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 17. gr. útlendingalaga sem Rauði krossinn telur tilefni til að gera athugasemdir við. Í ákvæðinu er lagt til að á eftir 2. mgr. 17. gr. komi ný málsgrein, 3. mgr., þar sem kveðið er á um heimild lögreglu til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði útlendings ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun hans skv. 104. gr. útlendingalaga. Í athugasemdum við frumvarpsgreinina segir að í vissum tilvikum geti reynst nauðsynlegt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um að viðkomandi útlendingur sé nægilega hraustur til að geta ferðast. Með heilbrigðisyfirvöldum sé átt við alla þá aðila sem veiti heilbrigðisþjónustu í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, […] þ.m.t. heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn, hvort sem þeir starfi innan eða utan heilbrigðisstofnana. Vísa frumvarpshöfundar í þessu sambandi til þess ástands sem upp kom vegna heimsfaraldursins og þess að ríki fóru að krefjast þess að útlendingar framvísuðu mótefna- eða bólusetningarvottorði á landamærum sem skilyrði fyrir inngöngu í hlutaðeigandi ríki. Þá vísa frumvarpshöfundar einnig til þeirrar stöðu sem upp kom hér á landi þegar útlendingar, sem yfirgefa áttu landið, neituðu að afhenda slík vottorð. Sé þeirri tillögu sem lögð er til í 4. gr. frumvarpsins ætlað að tryggja fullnægjandi lagaheimild fyrir öflun lögreglu á slíkum vottorðum frá heilbrigðisyfirvöldum án samþykkis þeirra einstaklinga sem í hlut eiga eða dómsmeðferðar. Ákvæðið sé mikilvægur liður í heildarkerfi útlendingamála hér á landi. Án umræddrar heimildar geti komið upp tilvik þar sem lögregla geti ekki framkvæmt flutninga úr landi en slíkt dragi úr skilvirkni kerfisins og fari auk þess gegn þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist.“

Og hér er áhugaverði hlutinn, virðulegi forseti:

„Hvergi vísa frumvarpshöfundar þó til umræddra skuldbindinga Íslands og því alls óljóst hvaða alþjóðlegu skuldbindingum farið yrði gegn verði heimildin ekki að lögum.“

Þetta er svo sem kunnuglegt stef, virðulegi forseti. Það er einhvern veginn talað um að alþjóðalög skuldbindi okkur t.d. til að vísa fólki til Grikklands sem þau gera alls ekki og það er talað um hér að alþjóðalög skuldbindi okkur til að afla heilbrigðisvottorða án samþykktar flóttafólksins sem um ræðir og án dómsúrskurðar. Það eru vissulega engar alþjóðlegar skuldbindingar sem gera kröfu um slíkt og þess vegna ábyrgðarhluti að setja það í greinargerð með frumvarpi sem kemur frá dómsmálaráðuneytinu.

Ég hlýt að taka undir með Rauða krossinum þar sem segir, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn bendir á að hvers kyns öflun vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum án samþykkis viðkomandi felur í sér víðtækt inngrip í friðhelgi einkalífs fólks og þurfa ákveðin skilyrði því að vera uppfyllt svo lagasetning sem þessi standist stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar.“ — ákkúrat 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson vísaði í hér áðan — „Frumskilyrði varðandi takmarkanir sem settar eru á friðhelgi einkalífs eru að þær séu í fyrsta lagi reistar á skýrri lagaheimild, stefni í öðru lagi að lögmætu markmiði og í þriðja lagi gangi ekki lengra en nauðsynlegt sé svo að markmið þeirra náist.“

Áfram segir:

„Í 1. mgr. 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands (hér eftir stjórnarskráin) segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og í 2. mgr. 71. gr. kemur m.a. fram að ekki megi gera líkamsrannsókn á manni eða rannsókn á skjölum sem skerðir einkalíf hans nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild.“

Þetta er vissulega mjög mikilvægt ákvæði, virðulegi forseti, og ein af ástæðunum fyrir því að við leggjumst gegn þessu frumvarpi. Ég mun fara nánar yfir það í næstu ræðu og óska því eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.