Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

frumvarp til útlendingalaga.

[11:41]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það liggur ljóst fyrir að það hafa allir aðilar í samfélaginu, og hagsmunasamtök barna hafa það líka, rétt til að veita umsagnir um mál og hafa skoðun á einstaka greinum. Það sem ég er að varpa ljósi á er skilningur bæði mín og míns ráðuneytis þess efnis að þegar kemur að hagsmunamati sem unnið er á forsendum barna þá þurfi sú reglugerð að vera ítarlega unnin. Ég held að það muni svara talsverðu af þeirri gagnrýni sem hefur verið á málið. Ég hlakka mjög til að hefja þá vinnu með hæstv. dómsmálaráðherra að smíða þá reglugerð og fagna því mjög að við séum að stíga það skref að lögfesta það að það sé skylda dómsmálaráðuneytis, sem fer með útlendingalög, og síðan ráðuneytisins, sem fer með réttindi barna og barnavernd, að semja slíkt hagsmunamat. Hagsmunamat þarf að byggja á því að hagsmunir hvers barns séu teknir fyrir, að það sé formað út frá hagsmunum þess barns en ekki fjölskyldunnar í heild, ekki barnahópsins í heild o.s.frv. Ég fullyrði það að þegar við hefjumst handa við smíði þeirrar reglugerðar og birtum hana munum við gæta að því að hagsmunir barna verði settir í fyrsta sætið og það er verið að setja þá lagaskyldu á okkur að gera það og koma að þeirri vinnu.