Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:22]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir ræðuna sína hér. Hann kom inn á þó nokkur atriði sem ég lagði mikla áherslu á í ræðum mínum í gærkvöldi. Hv. þingmaður las upp umsögn þar sem var talað um að svipta umsækjendur rétti sínum að grunnþjónustu. Það mun náttúrlega skapa aukaálag á félagslegu kerfin okkar þegar einstaklingur missir þá grunnþjónustu sem hann á rétt á samkvæmt núverandi lögum, eins og t.d. húsnæði og rétt til heilbrigðisþjónustu. Það leiðir til þess að þessi einstaklingur mun þurfa að leita t.d. í neyðarskýli. Það mun bara skapa meiri kostnað og álag á ríkið og á þessi kerfi.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að tilefni sé til þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki sérstaklega þetta lagaákvæði til skoðunar þegar málið fer aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. — mig minnir að þetta sé 6. gr. frumvarpsins, já, 6. gr. frumvarpsins — og hvort hv. þingmaður telji að það sé tilefni til að fjalla sérstaklega um inntak þessara greina og mögulegar afleiðingar.

Hv. þingmaður kom síðan líka inn á umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands þar sem það er talið að ákvæði þessa frumvarps samræmist mögulega ekki stjórnarskrá og mögulega ekki mannréttindasáttmála Evrópu sem er fullgildur hér á landi, lögfestur líka og búið að innleiða í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Er ekki bara fullt tilefni til að gera almennilega úttekt á því hvort þetta samræmist stjórnarskrá þannig að við gerumst ekki sek um að vera Alþingi, löggjafarþingið sem lögfesti lög sem samrýmast ekki stjórnarskrá eftir að hafa fengið viðvörun um það frá umsagnaraðilum?