Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:12]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Forseti. Mig langar fyrst og fremst að þakka þér, frú forseti, fyrir að bera nafnið mitt rétt fram. Ég kann að meta það, ekki margir forsetar á Alþingi sem gera það.

Ég var að tala um misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls og kom inn á það hvernig þetta frumvarp gerir stjórnvöldum kleift að misbeita valdi sínu þegar kemur að því að leiða til úrlausnar mála. Beiting þessarar óskráðu meginreglu fer oftast fram í tveimur áföngum. Fyrst er að kanna hvort stjórnvaldið hafi í raun val um að leggja mál í fleiri en einn farveg og leysa úr því. Svo þarf að túlka réttarheimildir sem stjórnvaldsákvörðunin byggist á. Segjum sem svo að þær réttarheimildir verði túlkaðar sem stjórnvaldsákvörðun um að synja umsækjendum um alþjóðlega vernd byggist á, þessi útlendingalög, og ef þeirri lögbundnu málsmeðferð er ekki fylgt er um lögbrot að ræða.

Virðulegi forseti. Segjum sem svo að þessar réttarheimildir verði túlkaðar sem þessi stjórnvaldsákvörðun byggir á. Segjum að heimildinni sé beitt, sem er að mig minnir í 7. gr. eða 2. gr., ég man ekki hvar þetta er, hvaða grein það er — ég þarf bara eintak af frumvarpinu hér með mér, ég kem með það næst upp í pontu — um það að vísa endurtekinni kæru frá eða um það að taka ákvörðun í máli áður en öll nauðsynleg gögn liggja fyrir. Þá kemur auðvitað að því að það er verið að túlka réttarheimildirnar sem eru annars vegar það frumvarp til útlendingalaga sem við erum að ræða hér og hins vegar almenn stjórnsýslulög, sem eru bara með sérmálsmeðferðarreglu sem hefur alltaf verið farið eftir. Þá stangast þessir tveir lagabálkar á og mér þykir bara rosalega hæpið að þetta frumvarp, sem hæstv. dómsmálaráðherra er að leggja fram hér og er svo þrjóskur og fastur á því að Alþingi samþykki, vegi þyngra en almennu stjórnsýslulögin. Því velti ég fyrir mér: Er búið að hugsa þetta eitthvað í gegn, virðulegur forseti? Er búið að pæla í því hvað gerist ef það leiðir til einhvers dómsmáls þegar kemur að því að úrskurða um hvor lagabálkurinn er lögmætari þegar kemur að úrlausn í stjórnsýslumáli sem varðar stjórnvaldsákvarðanir um rétt eða skyldur manna sem samkvæmt lögum fellur undir stjórnsýslulögin?

Þetta eru hlutir sem dómsmálaráðuneytið er greinilega búið að pæla nógu vel í og mér þykir það mjög miður af því að það er auðvitað mjög alvarlegt starf að vera löggjafinn hér á Íslandi. En þegar stjórnvald hefur aftur á móti val um það hvaða leið er farin er a.m.k. ljóst að val stjórnvalds um í hvaða farveg málið fer má ekki byggjast á því sjónarmiði að hægt sé að fylgja einfaldri málsmeðferð í því skyni að komast hjá því að fara með mál í aðra tímafrekari og fyrirhafnarmeiri meðferð. Bara nákvæmlega það sem ég var að tala um áðan. Þetta frumvarp fer nákvæmlega í bága við þessa reglu, bara nákvæmlega í bága við þetta. Með því að veita t.d. Útlendingastofnun heimild til þess að taka umsókn til afgreiðslu og afgreiða hana endanlega á hraðari hátt en nú er gert þá eru stjórnvöld bókstaflega að reyna að komast hjá því að fara með mál í aðra tímafrekari og fyrirhafnarmeiri meðferð. Það er auðvitað bara misbeiting valds.

Þetta veldur mér áhyggjum og ég er ekki bara að segja eitthvað hérna uppi í pontu til að segja að segja eitthvað hérna uppi í pontu, ég er að benda á mikilvæg atriði sem ekki er búið að skoða þegar kemur að þessu frumvarpi. Ég væri svo ótrúlega til í að vera í hv. allsherjar- og menntamálanefnd til þess að geta bent á þessi atriði sem ég kem með hér í dag af því að ég stend við allt sem ég segi. Það veldur mér í alvörunni verulegum áhyggjum, frú forseti, hvað þetta frumvarp er vanhugsað, hvað þetta frumvarp getur farið gegn mörgum reglum í almennum stjórnsýslulögum, mörgum málsmeðferðarreglum, mörgum reglum sem eru venjuhelgaðar sem er beitt í framkvæmd og virka vel í framkvæmd. Hvernig mun þetta hafa áhrif á bara lagaumhverfið þegar tveir mismunandi lagabálkar stangast á? Þá þarf kannski bara að beita — nei, ókei, ég ætla ekki að fara út í reglubeitingu.

— En ég er ekki búin, frú forseti. Þú mátt setja mig aftur á mælendaskrá.