Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Við ræddum hér aðeins í gær hóp fólks sem er í svokallaðri umborinni dvöl. Þetta er nú ekki hugtak sem er skilgreint í lögum vegna þess að þetta er hópur sem býr við fullkomna lagaóvissu, þetta er fólk sem passar ekkert inn í kerfið á Íslandi þó að nágrannalöndin hafi áttað sig á tilvist þessa hóps fyrir einhverju síðan og gert ráð fyrir honum í sínum lögum. Hér er um að ræða einstaklinga sem hafa komið hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd og síðan fengið endanlega synjun hér á landi en geta ekki snúið til baka til heimalands síns af ýmsum ástæðum og ílengjast þá hér á landi í mjög undarlegu millibilsástandi þar sem þau eru ekki lengur umsækjendur um alþjóðlega vernd með þeim réttindum sem því fylgja og ekki búin að fá neitt samþykkt heldur.

Rauði krossinn gaf út skýrslu nýlega varðandi þennan hóp sem Rauði krossinn á Íslandi fór að taka eftir fyrir þremur árum síðan, þannig þetta er hópur sem varð til frekar nýlega. Það sem í ljós kom var að hér voru 64 einstaklingar sem höfðu lent í þessari stöðu frá árinu 2017 og Rauði krossinn tók viðtöl við hluta þess hóps til að kortleggja stöðu hans. Stærstir innan þessa hóps eru annars vegar einstaklingar frá Nígeríu sem ekki geta farið til heimalands síns vegna þess að þau hafa ekki persónuskilríki, 25 manns eru þar og svo eru 16 Írakar sem ekki er hægt að senda til Írak vegna þess að það er ekkert stjórnmálasamband milli landanna tveggja. Það sem stjórnvöld hafa hins vegar reynt að gera er svona blanda af gulrót og svipu, getur maður ekki sagt það, er það útlenska? Gulrótin er sú að þau bjóða heimferðastyrk til fólks sem vill þiggja, eins og við þekkjum nú varðandi bara umsækjendur um alþjóðlega vernd almennt, einhverja upphæð til að standa undir ferðakostnaði og smápening til að aðstoða við að aðlaga þau aftur að heimaríkinu. Viðtöl Rauða krossins við fólk í umborinni dvöl bendir til þess að þarna komi tvennt til. Annars vegar eru hópar sem geta hugsað sér að nýta þetta en það hefur síðan ekki gengið vegna þess að alþjóðastofnunin sem heldur utan um þessa heimferðarstyrki, International Organization for Migration — hvað köllum við hana aftur á íslensku, munum við það? Nei. Fólksflutningastofnun Sameinuðu þjóðanna, eitthvað svoleiðis (Gripið fram í: Já, það gæti verið eitthvað í þá áttina.) IOM, köllum hana það bara, þá er ég ekki að sletta. IOM sem á að aðstoða við að koma þeim heim og sjá um þetta allt saman hefur oft metið aðstæður í móttökuríkinu með þeim hætti að það væri hættulegt að vísa fólkinu þangað aftur eða að fólkið sem var á flótta frá ríkinu upphaflega metur aðstæðurnar sjálft svo hættulegar að það þiggur ekki þennan heimferðastyrk.

Hér er ég rétt byrjaður að tæpa á þessu, frú forseti, og sýnist ég þurfa að nýta mér næstu ræðu mína til að fara aðeins áfram yfir það hvers vegna ekki er hægt að koma þessu fólki til síns heima, klára hérna síðustu gulræturnar og fara síðan yfir í svipurnar sem íslenska ríkið beitir til að losa sig við þetta fólk úr landi.