Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var kominn að umsögn Þroskahjálpar. Samtökin benda á að svo virðist sem mjög þröng skilyrði séu sett fyrir því að umsækjendur falli undir skilgreiningu á að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu og Útlendingastofnun virðist ekki skrá fötlun eða alvarleg veikindi sem sérstaka breytu við meðferð mála hafi viðkomandi hlotið vernd í öðru ríki, sem þarf tvímælalaust að gera. Þetta eru sambærilegar ábendingar og aðrir umsagnaraðilar koma með um það hversu slæleg vinnubrögð Útlendingastofnunar séu. Þá hefur Útlendingastofnun, samkvæmt umsögn Þroskahjálpar, ítrekað vanrækt þá rannsóknarskyldu sem á henni hvílir að ganga úr skugga um hvaða þýðingu fötlun eða alvarleg veikindi hafa í þeim aðstæðum sem viðkomandi er sendur í eftir synjun um vernd á Íslandi.

Íslenska ríkið hefur einmitt fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og skýra ber lög í samræmi við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist, samanber hæstaréttardóm nr. 125/2000. Af þessu leiðir að Útlendingastofnun er skylt að taka mikið tillit til ákvæða samningsins. Ísland er búið að skuldbinda sig til að uppfylla þennan samning. Við höfum viljandi undirgengist þessar skuldbindingar og að innleiða það í lög og að fara eftir þessum viðmiðum sem er verið að reyna að setja úti um allan heim í rauninni til þess að hjálpa til við að viðhalda mannréttindum, sem viðheldur friði, sem kemur í veg fyrir stríð eða alla vega lágmarkar skaðann af því þegar það gerist.

Þroskahjálp fordæmir þessa meðferð sem beitt var við brottvísun fatlaðs flóttamanns til Grikklands þann 4. nóvember síðastliðinn og bendir á að endurskoða þurfi kerfið frá grunni með aðkomu fagaðila. En það er einmitt ekki það sem er verið að gera hérna. Hér er verið að tína til einhverjar breytingar á útlendingalögum, atriði sem stjórnvöld hafa rekist í á undanförnum árum og finnst vera óþægileg af því að þau geta ekki bara trukkað einhverju í gegn sem þeim finnst að þau ættu að geta gert. En ákvæði og skilyrði mannréttindasáttmála og samninga um t.d. réttindi fatlaðs fólks eru einhvern veginn að þvælast fyrir þeim. Þá vilja þau bara reyna að gera þetta löglegt, eins og það muni í rauninni laga eitthvað. Ef eitthvað er þá bæta allar þessar undanþágur sem eiga að stilla einhvern veginn til væntingar fólks að — „Já, það er hérna verið að missa réttindin“ — en ekki þessir viðkvæmu hópar sem Útlendingastofnun hefur bara farið tiltölulega illa með miðað við reynslu þessara umsagnaraðila, Kvenréttindafélags Íslands, Amnesty International, Þroskahjálpar og fleiri aðila sem ég á eftir að fara hérna yfir seinna. Þroskahjálp kallaði eftir samráði við lagasetninguna til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og harmar að það hafi ekki fengist.

Þetta er staðan sem við erum í með þetta frumvarp. Það er ekkert skrýtið að við séum hérna í ræðustóli Alþingis að segja frá því um hvað málið snýst af því að það er rosalega vandræðalegt. Það er í rauninni alls ekkert skrýtið að stjórnarliðar vilji ekki koma og taka þátt í þessari umræðu. Þau vilja bara fela sig einhvers staðar úti í horni, bara setja yfir sig teppi eða eitthvað svoleiðis og bíða eftir að stormurinn klári vonandi, sem að mínu mati mun ekki gerast. Ef þetta frumvarp verður samþykkt munum við lenda í svo miklum stormi af alls konar veseni út af þessum ákvæðum að það verður ekkert hægt að fela sig. Nú er tækifæri til að koma í veg fyrir þetta vesen sem er fyrirsjáanlegt ef þetta frumvarp verður samþykkt.

En samtökin ítreka mikilvægi rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Þetta er svo mikið grundvallaratriði að það er ótrúlegt að við skulum þurfa að segja þetta eiginlega. Upp hafa komið tilvik þar sem umsækjandi um alþjóðlega vernd býr við ósýnilega fötlun. Það kemur ekki í ljós fyrr en eftir að Útlendingastofnun tekur ákvörðun. Þroskahjálp gerir þá kröfu að viðurkenndur fagaðili með sérþekkingu á málefninu komi að mati á því hvort einstaklingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, (Forseti hringir.) og þá sem sagt ekki bara einhver starfsmaður Útlendingastofnunar eða trúnaðarlæknir sem við höfum verið að glíma við annars staðar.

Ég bið forseta um að setja mig á mælendaskrá aftur, takk.