Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Já, ég tek eindregið undir með hv. þingmönnum sem komið hafa hér upp og bent á að það séu ekki bara dæmi heldur bara mjög góð fordæmi um nákvæmlega sömu vandamál, að frumvörp standist ekki stjórnarskrá þegar þau eru komin til 2. umr. og það sé lagað með því að senda þau aftur til nefnda. En mig langar líka að benda á að hér erum við að tala og hæstv. forseti hefur haldið þinginu í gíslingu með því að halda kvöld- og næturfundi. Við erum hér að tala, við Píratar, og við erum sex manns hér í salnum, en samkvæmt fjarvistaskrá þingsins eru fimm aðrir þingmenn á þinginu, hér á staðnum. Ef vilji er til þess, eins og hæstv. forseti sagði áðan, að reyna að láta þetta mál ganga hratt og vel fyrir sig væri góður bragur á því að þeir hv. þingmenn tækju þátt í þessum umræðum.