Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Hér talaði forseti áðan eins og það væri mjög óvanalegt að mál gengi til nefndar án þess að 2. umr. hefði verið lokið. Ég skal alveg viðurkenna að það gerist ekki oft. En það er ekki svo óvenjulegt að það sé eins og það sé nánast ekki hægt að leggja það til nema í einhverri katastrófu. Við erum kannski einmitt með katastrófu hérna. Það sem við erum búin að vera að benda á í umræðunni undanfarið er að vegna asa sem var á stjórnarmeirihlutanum í allsherjar- og menntamálanefnd þá gáfu þeir sér ekki tíma til að aðgæta hvort þetta frumvarp stæðist stjórnarskrá og mannréttindaskuldbindingar og barnasáttmálann. Það er ekkert smáatriði. Það er eitthvað sem verðskuldar þá athygli sem umfjöllun við 2. umr. veitir en þá ekki þann hraðþvott sem 3. umr. er. Auðvitað á þetta mál að fara til allsherjar- og menntamálanefndar nú þegar. (Forseti hringir.) Ég vona að forseti hjálpi formanni allsherjar- og menntamálanefndar til að sjá það fyrr en síðar.