Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef hér er verið að fjalla um alvarleg áhrif réttindaskerðingar skv. 6. gr. frumvarpsins í samhengi við umsögn Rauða kross Íslands um þetta mál og ég hef verið að tala um hvernig Útlendingastofnun hefur verið að vanrækja skyldur sínar til að ganga úr skugga um hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd falli undir hóp í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sem þeim ber að ganga úr skugga um að umsækjendur séu eða séu ekki. Ég hef verið að fara yfir það að þessar afleiðingar eru mjög alvarlegar, að Útlendingastofnun vanræki þessar skyldur sínar, og ætlaði að halda áfram að lesa úr umsögninni á blaðsíðu 7 en er reyndar að fara á blaðsíðu 3, með leyfi forseta:

„Afleiðingar þessarar vanrækslu stofnunarinnar geta verið alvarlegar þegar umsækjendur sem í raun falla undir hugtakaskilgreiningu 6. tölu. 3. gr. útl.“ — sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu — „fá ekki viðurkenningu á stöðu sinni þar sem ekki hefur farið fram rannsókn á andlegu eða líkamlegu ástandi viðkomandi“, eins og 1. mgr. 25. gr. útlendingalaga segir fyrir um að eigi að eiga sér stað.

„Þrátt fyrir nefndar undantekningar á meginreglunni um niðurfellingu þjónustu telur Rauði krossinn í ljósi framangreinds að leiða megi líkur að því að breytingin muni samt sem áður koma harðast niður á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu (s.s. fötluðu fólki, fórnarlömbum mansals, pyndinga og annars alvarlegs ofbeldis) […].“

Hvers vegna heldur Rauði krossinn þessu fram? Jú, eins og ég er búin að vera að fara ítarlega yfir hér, með leyfi forseta: „… hefur Útlendingastofnun túlkað skilgreininguna á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu verulega þröngt. Að sama skapi eru möguleikar þeirra til að yfirgefa landið innan 30 daga frá birtingu endanlegrar ákvörðunar mun minni en umsækjenda í sterkari stöðu. Einstaklingar sem teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu hafa þar að auki aukna þörf á tryggu húsnæði og heilbrigðisþjónustu.“ — En ég vil endurtaka að það hafa allir þörf fyrir tryggt húsnæði og heilbrigðisþjónustu.

„Með því að kveða á um niðurfellingu á þjónustu er varðar grunnvelferð fólks er hætta á að alvarleg vandamál skapist. Umræddir einstaklingar yrðu þar með berskjaldaðir fyrir hvers kyns misneytingu, mansali og ofbeldi. Breytingin hefði þau áhrif á íslenskt samfélag að heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Samhliða því myndu líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum aukast. Ljóst er að álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu mun aukast, samhliða breytingunni.

Það er vel þekkt, og ekki séríslenskt vandamál, að erfiðlega gangi að flytja umsækjendur um alþjóðlega vernd úr landi. Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því sem í raun hafa oft ekkert með umsækjendur sjálfa að gera en ákvæðið verður einnig að skoðast í samhengi við þá tillögu í frumvarpinu sem fram kemur í b-lið 8. gr. þar sem lagt er til að synja skuli um efnismeðferð ef umsækjandi hefur slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað. Í greinargerð við ákvæðið kemur fram að við mat á því hvað teljist sanngjarnt og eðlilegt skuli m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu. Þá geti ákvæðið einnig komið til skoðunar þegar umsækjandi hefur ekki dvalið í ríkinu en hefur náin fjölskyldutengsl við það. Fyrirfram er ljóst að flutningur fólks til ríkja þar sem það hefur ekki formlegt leyfi til dvalar getur verið miklum erfiðleikum bundinn, ef ekki óframkvæmanlegur. Rauði krossinn telur eðlilegt að ábyrgð á brottflutningi fólks sem hefur fengið endanlega synjun og þar með ábyrgð ríkisins á velferð þeirra sem um ræðir á meðan þeir dvelja hér á landi sé ekki rofin með þeim hætti sem hér er lagt til.“

— Ég er algjörlega sammála mati Rauða krossins sem kemur hér fram, virðulegi forseti: „[…] að í stað þessa ákvæðis væri nær að auðvelda fólki sem bíður endursendingar um lengri tíma að sjá sér sjálft farborða. Það er reynsla félagsins að flestir í hópi umsækjenda myndu frekar kjósa það en að vera á framfæri íslenska ríkisins.“ (Forseti hringir.)

Ég tek því undir með Rauða krossinum sem leggur eindregið til (Forseti hringir.) að fallið verði frá þeirri breytingu sem kveðið er á um í 6. gr. frumvarpsins.