Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég held áfram umfjöllun minni um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég taldi mikilvægt að fara í ákveðnar greinar þess samnings þar sem Útlendingastofnun hefur nýverið sýnt það í verki að hún skilur hreinlega ekki út á hvað sá samningur gengur og ráðuneytið, sem samdi þetta frumvarp sem við erum hér að ræða, virðist ekki heldur hafa þennan skilning. Það er von mín að ráðuneytið, ráðherra og hv. allsherjar- og menntamálanefnd leggi við hlustir og átti sig kannski á ákveðnum atriðum sem taka þarf til endurskoðunar vegna þessa.

11. gr. hefur dálítið að gera með það sem við erum að upplifa núna, þ.e. stríð og það hvernig taka þarf sérstaklega tillit til fatlaðs fólks á slíkum tímum. 11. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir.“

Já, við þurfum að taka sérstakt tillit til þeirra sem upplifa slíkt og taka á móti þeim og veita þeim vernd.

Mér sýnist ég komast alla vega í gegnum 13. gr., jafnvel 14. gr. Eins og ég sagði hoppa ég yfir þær greinar sem ég tel ekki snerta þetta frumvarp beint. 13. gr. fjallar um aðgang að réttinum og er í tveimur málsgreinum sem hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, meðal annars með aðlögun málsmeðferðar og aðlögun með tilliti til aldurs í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess, beinni eða óbeinni, þar á meðal sem vitni, í allri málsmeðferð, þ.m.t. á rannsóknarstigi eða öðrum fyrri stigum máls.

2. Í því skyni að tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum skulu aðildarríkin efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa.“

Virðulegi forseti. Þarna er m.a. talað um mikilvægi þess að þjálfa lögreglu og aðra sem starfa á sviði réttarvörslu og að það sé líka unnið sérstaklega að því að aðlaga málsmeðferðir þegar um fólk með fötlun er að ræða. Þetta er nokkuð sem við sáum ekki gerast hér fyrir jól. Slík aðlögun er ekki bara það að vera með einhvern hjólastólabíl heldur að hugsa ferlið allt upp á nýtt og framkvæma það í samræmi við þennan samning.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að komast aftur á mælendaskrá.