Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég var að fjalla hér um umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og átti eftir að fara út í lokasprettinn í umsögn þeirra. Þar var fjallað um réttindi fatlaðs fólks sem varða aðgang að réttinum. Í umsögninni kemur fram, með leyfi forseta, að 13. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, þar sem fjallað er um aðgang að réttinum, hljóði svo:

„1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, meðal annars með aðlögun málsmeðferðar og aðlögun með tilliti til aldurs í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess, beinni eða óbeinni, þar á meðal sem vitni, í allri málsmeðferð, þ.m.t. á rannsóknarstigi eða öðrum fyrri stigum máls.

2. Í því skyni að tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum skulu aðildarríkin efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa.“

Í þessu samhengi krefjast samtökin þess: „… að hlutaðeigandi stjórnvöld tryggi, eins og nokkur kostur er, að umsækjendum um alþjóðlega vernd verði ekki vísað úr landi án þess að rannsakað hafi verið með viðeigandi og vönduðum hætti hvort þeir séu fatlaðir eða kunni að vera fatlaðir í skilningi fjölþjóðlegra mannréttindasamninga og geti því átt rétt til verndar samkvæmt þeim samningum og/eða íslenskum lögum eða til dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Að mati samtakanna er það augljós og skýr skylda stjórnvalda samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar sem er algjör grundvallarregla í íslensku stjórnkerfi og réttarríkinu.

Einnig krefjast samtökin þess að í þeim tilvikum sem fötluðum umsækjendum um alþjóðlega vernd er synjað um vernd eða efnismeðferð að þær aðstæður sem viðkomandi verður sendur í verði kannaðar til hlítar og gengið úr skugga um að mannréttindi þau sem eru varin í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks séu uppfyllt þar að fullu.

Þá ber íslenskum stjórnvöldum að sjá til þess að framkvæmd brottvísunar í tilvikum fatlaðs fólks uppfylli kröfur um mannúðlega meðferð, mannvirðingu og mannréttindi fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi það mál sem hér er til umsagnar til að tryggja réttindi fatlaðs fólks og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og er svohljóðandi:

„Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Að lokum harma Samtökin að ríkisstjórnin skuli ekki hafa orðið við ákalli um samráð við gerð frumvarps til breytinga á lögum um útlendinga sem eftirfarandi samtök og stofnanir sendu henni 7. september síðastliðinn. Það voru samtökin Geðhjálp, Hjálparstarf kirkjunnar, Íslandsdeild Amnesty International, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn á Íslandi, Samtökin '78, Siðmennt, Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, UNICEF á Íslandi, UN Women á Íslandi, þjóðkirkjan, Öryrkjabandalag Íslands. Þetta eru 15 mikilsverð félagasamtök og m.a.s. þjóðkirkjan sjálf. Hún sendir ríkisstjórninni ákall um samráð við gerð frumvarps til breytinga á lögum um útlendinga og ríkisstjórnin ákvað að verða ekki við því. Mér finnst það segja sína sögu um hversu þvermóðskulegt þetta ferli allt hefur verið. Þegar þjóðkirkjan sendir ríkisstjórninni ákall, þessari íhaldssömu og að mörgu leyti trúræknu ríkisstjórn, þá verður hún ekki við því. Það er eiginlega bara merkilegt með eindæmum, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin hafi ekki getað brotið odd af oflæti sínu og ákveðið að hlusta á mannúðarsamtök og verið í samráði við þau við gerð þessa frumvarps. Nei, áfram veginn, ekkert hlustað og stefnt beint í eitthvert öngstræti þar sem við erum að fjölga heimilislausu fólki í algerri neyð og algjörri örbirgð.

Þetta mál nær engri átt, virðulegi forseti. Ég mun því halda áfram að ræða það og óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.