Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[04:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Þó að ég sé að fjalla um aðra þætti en hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttur þá má ég til með að taka upp þráðinn varðandi Hussein Hussein og mál hans, vegna þess að það sem er að gerast í því er nánast einsdæmi og það er að ríkið er að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms í málinu sem féll gegn ríkinu en Hussein í vil, áfrýja því til Landsréttar. Þetta er svo óvenjulegt vegna þess að oftast falla dómar bara ekki vegna þess að fólk er flutt úr landi áður en til þess getur komið, eða þegar þeir falla, jafnvel þótt niðurstaðan sé ríkinu ekki vilhöll, þá er sárasjaldan, ef nokkurn tímann, áfrýjað vegna þess að það er nánast eins og ríkið vilji ekki fá fram skýrt dómafordæmi á æðra dómstigi. Meðan aðeins er um að ræða dóma hjá héraðsdómi geta dómarnir jafnvel verið misvísandi, það er hægt að túlka þá. Það er eins og stjórnvöld vilji ekki fá meira bindandi niðurstöðu í þessi mál vegna þess að slík bindandi niðurstaða myndi gera þeim erfiðara fyrir að móta framkvæmdina dálítið eftir því hvernig vindar blása, sem virðist vera eitt helsta vandamálið við framkvæmd útlendingalaga; það eru ekki lögin sem breytast heldur hefur framkvæmdin gert það mjög mikið á síðustu árum. Það fer bara eftir því hvernig stemningin er hjá Útlendingastofnun virðist vera.

Mig langaði að nefna þetta í tengslum við þær breytingar sem voru settar inn í útlendingalögin með lögum nr. 17/2017, varðandi það að kæra fresti ekki réttaráhrifum, þ.e. kæra á brottvísun útlendings sem hefur sótt um alþjóðlega vernd fresti ekki réttaráhrifum brottvísunarinnar hafi Útlendingastofnun metið umsóknina bersýnilega tilhæfulausa og einstaklingurinn kemur frá ríki sem er á lista yfir örugg ríki. Þetta er náttúrlega verkfærið sem er notað til að það byggist ekki upp dómafordæmi. Það að moka fólki úr landi með ókláruð mál er til þess að málin klárist ekki. Það er til þess að málin fari ekki undir smásjá dómstóla. Það er til þess að ákvarðanir stjórnvalda þurfi ekki að þola nána rýni. Það er til þess að stjórnvöld þurfi ekki að bæta sig heldur geti bara valið eiginlega þá framkvæmd sem hentar hverju sinni. Það sem stóð náttúrlega í okkur á 146. þingi varðandi frumvarpið sem varð að lögum nr. 17/2017 var líka það hvernig þessi hugtök, örugg upprunaríki og tilhæfulaus umsókn, væru túlkuð vegna þess að hættan, sérstaklega varðandi öruggu ríkin, er sú að það verði bara til einhver listi yfir ríki og fólk sem kemur frá þeim myndi ekki fá þá einstaklingsbundnu yfirferð umsókna sinna sem eðlilegt er og mikilvægt að fólk fái. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli að hagir og staða hvers og eins séu metin í hverju tilviki fyrir sig vegna þess að þó að fólk komi frá ríki sem gagnvart flestum er öruggt þá getur fólk verið í sérstakri persónulegri stöðu sem gerir það útsett fyrir einhverjum hættum. Jafnframt töldum við mikilvægt að það væri ekki hægt að vísa fólki frá landi fyrr en endanlegur úrskurður liggur fyrir, enda sjáum við hvað það er kjánalegt (Forseti hringir.) að fylla þotu af fólki sem er með mál fyrir dómstólum og þurfa síðan að hjálpa því að koma til landsins (Forseti hringir.) þegar dómur fellur gegn ríkinu.