153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Ég var að fara yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi sem var að gagnrýna 2. gr., sjálfkrafa kæru, af tveimur ástæðum. Fyrri ástæðan varðar einmitt þýðingar, birtingar Útlendingastofnunar til umsækjenda, 10–20 bls. á íslensku. Það þarf að þýða það, talsmaður umsækjenda þarf að bóka fund með viðkomandi og túlk. Ekki hægt að gera það samdægurs og þetta tekur allt tíma. Seinni ástæðan er sem sagt vanræksla Útlendingastofnunar á rannsóknarskyldu. Þetta hafa mjög margir umsagnaraðilar gagnrýnt, að þrátt fyrir lagaskyldu sinnir Útlendingastofnun ekki þessari skyldu sinni. Þetta er starfsreynsla þessara aðila af Útlendingastofnun. Þannig að maður getur alveg spurt sig: Þarf Útlendingastofnun að hafa lög yfirleitt ef hún getur bara gert það sem henni sýnist? Jú, auðvitað, því að það á að vera hægt að rekja það fyrir dómi þegar Útlendingastofnun eða stjórnvöld almennt klúðra málum. En geta umsækjendur um alþjóðlega vernd sótt sér þau réttindi? Nei, það er búið að henda þeim úr landi. Ekki ætla þeir að vera að sækja rétt sinn t.d. á götunni í Grikklandi.

Útlendingastofnun sýnir ekki frumkvæði við að kanna hvort einstaklingur kunni að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Af því að þetta er matskennt atriði þá er það bara: Nei, okkur finnst það ekki. Við finnum ekki neitt, við kíktum aðeins í gegnum blöðin og nei, æ, æ, hann er ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Reglulega kemur það upp að umsækjendur hafi ekki verið komnir með tíma í fyrstu heilbrigðisskoðun þegar þeir mæta til viðtals hjá Útlendingastofnun, en í slíkri skoðun er skimað fyrir líkamlegum og andlegum veikindum. Í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að bíða með ákvarðanatöku í málinu þar til gögn hafa orðið til og borist frá heilbrigðisyfirvöldum. Upplýsingar úr sjúkraskrá gefa oft tilefni til frekari rannsóknar og greiningar á andlegum og líkamlegum veikindum umsækjenda með öflun ítarlegri vottorða.

Við erum að tala um fólk hérna sem er í raunverulegri neyð, sem er að koma úr áfallástandi í það minnsta. Hættan við þetta er ekki endilega að einhver sem eiga ekki rétt á alþjóðlegri vernd fái ekki alþjóðlega vernd heldur að þau sem eiga í raun og veru rétt á alþjóðlegri vernd fái hana ekki af því að það er skussaháttur í gangi hjá stjórnvöldum, þau sinna ekki starfi sínu. Rauði kross Íslands segir að töluvert beri á því að Útlendingastofnun fallist ekki á að veita umsækjendum frest til að afla slíkra gagna sjálfir. Enn fremur eru umsækjendur ítrekað látnir bera hallann af því ef gögn skortir sem varpa ljósi á andlega eða líkamlega heilsu viðkomandi. Þau fá ekki tíma, fá ekki svigrúm. Það er ekki skoðað nægilega vel. Þetta eru ítrekað sömu skilaboðin frá fólkinu sem hefur reynsluna af því að vinna þetta á gólfinu og er að segja þinginu hérna: Þetta gengur ekki. Svona virkar þetta í alvörunni, við fáum 10–20 bls. úrskurð á íslensku sem umsækjendurnir skilja ekki. Talsmennirnir þurfa að redda túlk sem kostar eitthvað að sjálfsögðu. Útlendingastofnun gerir það ekki, skilar ekki frá sér gögnum á skiljanlegan hátt. Þetta eru aðilar sem eru á gólfinu sem eru að segja okkur: Svona virkar kerfið. Þetta eru breytingarnar sem þið ætlið að gera hérna. Þær munu hafa slæm áhrif, gera þetta enn verra en það er nú þegar, og stjórnvöld segja bara að það muni búa til skilvirkni. Risastóra spurningin hérna er: Skilvirkni fyrir hvern? Því að þau segja í frumvarpinu að það eigi að búa til skilvirkni á þann hátt að það sé að sjálfsögðu mannúðlegt og sanngjarnt og að þau sem eru umsækjendur, bæði þau sem fá vernd og fá ekki vernd, fái að vita það sem fyrst. Það eru allir sammála um það, en þetta er bara flókið verkefni sem tekur tíma. Við verðum að viðurkenna það, við verðum að vita af því og við verðum að skilja (Forseti hringir.) hvernig skrefin eru, til þess t.d. (Forseti hringir.) að átta okkur á því hvernig þetta frumvarp er ekki að ná tilætluðum árangri. (Forseti hringir.) — Ég bið forseta vinsamlega að setja mig aftur á mælendaskrá.