Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég held áfram með greinargerðina. Þriðji kaflinn fjallar um meðferð kæru á hendur aðildarríki að mannréttindasáttmála Evrópu.

„Í samningnum um verndun mannréttinda og mannfrelsis eru reglur um sérstakar stofnanir til að veita ríkjunum, sem hafa fullgilt mannréttindasáttmálann, aðhald og stuðla að því að þau virði réttindin, sem sáttmálanum er ætlað að tryggja. Þessar stofnanir eru nánar tiltekið mannréttindanefnd Evrópu og Mannréttindadómstóll Evrópu, auk þess sem ráðherranefnd Evrópuráðsins kemur við sögu í þessum efnum, en stofnanirnar starfa allar í Strassborg í Frakklandi.

Mannréttindanefnd Evrópu er sú stofnun sem kærum út af brotum á sáttmálanum er beint til í upphafi. Samkvæmt 20. og 21. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis er nefndin skipuð jafnmörgum mönnum og aðildarríki að sáttmálanum eru, en ráðherranefndin kýs einn mann frá hverju ríki í mannréttindanefndina til sex ára í senn af lista frá forsætisnefnd Evrópuráðsþingsins. Íslandsdeild þess tilnefnir þrjá menn fyrir sitt leyti. Svo sem fram kemur í 23. gr. samningsins eiga nefndarmenn í mannréttindanefndinni sæti í henni sem einstaklingar en ekki til að gæta hagsmuna heimaríkja sinna. Í 24. og 25. gr. samningsins er ráðgert að kærur um brot á samningnum geti borist mannréttindanefndinni með tvennu móti. Samkvæmt fyrra ákvæðinu getur aðildarríki að sáttmálanum kært annað aðildarríki fyrir samningsbrot, en samkvæmt því síðara getur nefndin tekið við kærum frá einstaklingum, hópi þeirra eða samtökum sem telja aðildarríki hafa brotið gegn samningnum. Þessi síðarnefnda heimild er þó háð því að aðildarríkið, sem kært er, hafi lýst sérstaklega yfir viðurkenningu fyrir sitt leyti á því að nefndin sé bær um að taka við kæru frá einstaklingum. Öll aðildarríkin hafa gefið slíkar yfirlýsingar.

Í 26. og 27. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis koma fram frekari skilyrði fyrir því að mannréttindanefndin taki kæru til meðferðar. Þar er áskilið að áður hafi verið farnar allar leiðir sem lög leyfa í heimalandinu til að leysa úr kæruefninu. Ef kæra berst frá öðrum en aðildarríki að sáttmálanum verður hún að vera frá nafngreindum einstaklingi eða samtökum, hún má ekki varða sama atvik og hefur áður verið kært til nefndarinnar nema nýjar upplýsingar komi þá fram, og kæran má heldur ekki vera í ósamræmi við reglur sáttmálans eða fela í sér misnotkun á kærurétti. Mannréttindanefndinni er jafnframt heimilað að vísa þegar á bug kæru frá einstaklingi ef hún á bersýnilega ekki við rök að styðjast. Sé þessum skilyrðum fullnægt á nefndin að rannsaka kæruefnið nánar og gefa eftir atvikum hlutaðeigandi aðildarríki kost á að tjá sig um kæruna. Nefndin leysir í kjölfarið úr því hvort kæran sé tæk til frekari meðferðar. Telji nefndin kæruna tæka til frekari meðferðar leitar hún sátta milli kærandans og ríkisins sem í hlut á. Takist sátt ekki segir nefndin álit sitt á því hvort ríkið hafi brotið gegn sáttmálanum og gerir um það sérstaka skýrslu. Slíkar skýrslur eru sendar ráðherranefnd Evrópuráðsins skv. 31. gr. samningsins. Hvort sem mannréttindanefndin telur aðildarríki hafa brotið gegn sáttmálanum eða ekki getur hún lagt málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu skv. 48. gr. samningsins til að fá leyst úr því hvort um brot hafi verið að ræða. Álit hennar um kæru, þar sem því er hafnað að brot hafi verið framið, felur þannig að jafnaði í sér lokaúrlausn um kæruefnið, enda getur kærandinn ekki lagt mál sjálfur fyrir mannréttindadómstólinn eftir núgildandi ákvæðum 44. og 48. gr. samningsins.“

Þetta er flókið ferli og það þarf öll ríkin og öll ferlin innan lands og í rauninni í hverju ríki til þess að virða allt ferlið. Í þessu tilviki sem við erum að glíma við hérna er það einmitt vandamál þeirra sem eru að sækja um og geta lent í því að brotið sé á þeim að þau geta ekki sótt öll sín réttindi hér innan lands og geta því ekki farið til Mannréttindadómstólsins sem er mjög mikið vandamál. — Ef forseti vill vinsamlegast setja mig á mælendaskrá aftur þá væri það vel þegið.