153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

Katla jarðvangur.

[15:44]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það sem mig langar að gera að umræðuefni mínu hér í dag er Katla jarðvangur. Hann er fyrsti jarðvangur Íslands stofnaður í nóvember 2010. Árið 2011 fékk hann aðild að samtökum evrópskra jarðvanga og alþjóðlegu neti jarðvanga eftir staðfestingu á innleiðingu hans innan UNESCO árið 2015. Katla jarðvangur nær yfir 9.500 km² landsvæði og þekur rúmlega 9% af flatarmáli landsins, frá Hvolsvelli í vestri að Skeiðarársandi í austri. Nyrsti hluti jarðvangsins teygir sig langt inn á Vatnajökul en langar strendur á svörtum sandi afmarka svo jarðvanginn í suðri. Þéttbýliskjarnar í Kötlu jarðvangi eru Hvolsvöllur, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustur. Jarðvangurinn skipar stóran sess sem hluti af ferðaþjónustu á svæðinu og er mikil virðing borin fyrir honum.

En eitthvað kostar að halda úti verkefni sem þessu. Framlag sveitarfélaganna sem standa að jarðvangnum er árið 2023 rúmlega 18 milljónir, en ekki hafa fengist vilyrði fyrir fjármögnun frá ríkinu fyrir starfsemi jarðvangsins sem er verulegt áhyggjuefni og ég tel að grípa þurfi til ráðstafana vegna þess. Það skiptir máli að aðilar standi saman að því að treysta grundvöll fyrir starfsemi jarðvangsins, bæði sveitarfélög og ríki, með samstilltu átaki ásamt því að nýta vel þau tækifæri sem gæðavottun UNESCO veitir svæðinu. Það er gríðarlega mikilvægt að við fáum festu í fjármögnun jarðvangsins fyrir næstu úttekt sem fer fram árið 2024–2025.

Mínar spurningar til hæstv. ráðherra eru því eftirfarandi: Hver er framtíðarsýn ráðherra þegar kemur að Kötlu jarðvangi og hvernig standa málefni Kötlu jarðvangs með tilliti til fjárframlaga til áframhaldandi reksturs og umsjón jarðvangsins? Hvernig sér ráðherra fyrir sér að varðveita það starf sem unnið hefur verið og hvernig má viðhalda ákveðnum verkefnum, t.d. samstarfi við Kötlusetur?