Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:41]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Nú er ég að koma hingað aftur í umræðuna og þegar ég lít yfir þingsal og skoða mælendaskrá þá er nánast eins og ég hafi ekki farið. Það hefur ansi margt komið fram í umræðunni en ef ég rifja upp sumt af því sem fram hefur komið mætti halda að sumir hv. þingmenn telji að það sé einhvers konar kerfi fyrir flóttamenn þar sem megi finna upplýsingar um til hvaða landa sé best að leita. Það er hæpið að sjá fyrir sér hvernig fólk í leit að vernd með takmarkaðan aðgang að tækni sé að standa í slíku. Á móti má benda á að undanfarið hefur ferðaþjónustan orðið sífellt mikilvægari. Stór hluti af því er ímynd landsins sem frjálslynds lands þar sem borin er virðing fyrir náttúru landsins og mannréttindum. Við stærum okkur líka gjarnan af því hvar við lendum í alþjóðlegum samanburði. Það taka nefnilega fleiri en Íslendingar eftir því og meðal áhrifavalda er oft mikið talað um land og þjóð. Það er rétt að velta fyrir sér þeirri ímyndaráhættu sem getur fylgt því ef ekki fer saman hljóð og mynd.

Að sjálfsögðu eigum við Íslendingar að taka mannréttindi alvarlega. Vegna þess langar mig að ítreka mikilvægi þess að við hér á Alþingi göngum úr skugga um að þau mál sem hér er fjallað um standist stjórnarskrá. Leiki minnsti vafi á því eigum við auðvitað að staldra við. Ég kalla áfram eftir því að við fáum það á hreint hvort það mál sem við ræðum hér standist stjórnarskrá. Getum við í alvöru haldið áfram með málið meðan það liggur ekki fyrir? Ég einfaldlega skil ekki hvers vegna því er haldið til streitu að ekki megi hvika frá því, að ekki megi gefa stjórnarskránni það tækifæri að við tryggjum það að hér verði ekki leidd í lög lagasetning sem brýtur í bága við mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Við látum okkur, að því er virðist, nægja að samþykkja álit frá ráðuneyti um að þetta sé nú bara allt í lagi.

Ég gef afar lítið fyrir það sem kemur beint frá stjórnsýslunni um að hér sé allt í fína lagi. Við þessu hefur verið varað og það ætti að kalla á viðbrögð. Við eigum að bregðast við og við eigum að tryggja að þau lög sem hér eru sett standist. Það er beinlínis okkar hlutverk sem þingmanna, umfram alla aðra hagsmuni, að standa vörð um stjórnarskrána. Það er nefnilega fleira undir hér en bara hagsmunir fólks í leit að vernd. Hér er það líka undir hvernig við komum fram á alþjóðavettvangi og skjótt skipast veður í lofti og ímynd Íslands sem ákjósanlegs áfangastaðar gæti hratt orðið allt önnur. Það yrði svo margfalt erfiðara að lagfæra hana en að viðhalda henni.

Eftir því sem meira heyrist í hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar kemst ég æ meir á þá skoðun að hér hafi ekki verið hlustað. Það er ljóst að ekki hefur verið hlustað á umsagnaraðila af því að nefndarálitið var tilbúið áður en margir umsagnaraðila fengu tækifæri til að koma fyrir nefndina. Það er líka ljóst að hér hefur ekki verið hlustað á mig eða aðra Pírata sem hafa tekið þátt í umræðunni því það er eins og við séum ekki að tala um sama frumvarpið. Þegar ég horfi yfir fundarsal Alþingis þá er hér afar svipað um að litast og þegar ég fór frá fyrir meira en viku, þegar ég fór úr sal fyrir meira en viku. Það blasir einfaldlega við mér að það er ekki hlustað. Það er ekki hlustað á þingmenn sem vara við þessu, það er ekki hlustað á umsagnaraðila. Hér fer einfaldlega ekki saman hljóð og mynd og við hljótum að ætla okkur að gera betur. Við verðum að ætla okkur að gera betur. Það er okkar hlutverk.