Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Við höfum kallað hérna ítrekað eftir nokkrum ráðherrum; félags- og vinnumarkaðsráðherra út af hluta hans í þessu máli, þetta hefur áhrif á hans málefnasvið; barna- og menntamálaráðherra út af réttindum barna, og líka í rauninni forsætisráðherra sem ráðherra mannréttinda á Íslandi og kannski sérstaklega núna eftir óundirbúna fyrirspurn í dag þar sem forsætisráðherra sagði, með leyfi forseta:

„… við getum auðvitað ekki rætt útlendingamálin eingöngu út frá þeim lögum og reglum sem við setjum um hverjum við tökum á móti, við þurfum líka að ræða það hér í þessum sal hvernig við tökum á móti þeim. Og það skiptir verulegu máli að ræða þau mál.“

Ég kallaði inn í þarna að við værum nú að reyna nákvæmlega þetta. Þetta er nákvæmlega það sem við erum að ræða um og það sem forsætisráðherra sagði að við þyrftum að ræða í þessum sal. Samt er ekki forsætisráðherra eða nokkur úr flokki forsætisráðherra eða nokkur úr ríkisstjórninni að ræða nákvæmlega þetta. Það er mjög áhugavert.