Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í 1. umr. um þetta mál sem við erum að ræða hér í dag, útlendingamálið, var okkur sagt: Já, engar áhyggjur, við munum ræða þetta. Ræðum þetta bara. Fyrst ræðum við þetta í nefnd og svo verður 2. umr. Þá getum við rætt þetta. Var þetta rætt? Nei. Hér komu örfáir fulltrúar stjórnarflokkanna og héldu sínar skylduræður sem margar hverjar afhjúpuðu það að viðkomandi þingmenn hafa ekki hugmynd um hvað þetta frumvarp snýst um. Okkur gafst þá færi á einu tveimur andsvörum þar sem við gátum spurt viðkomandi en svo fóru þau bara og hafa ekki tekið þátt í þessari umræðu síðan. Hæstv. forsætisráðherra kom hér í dag og sagði að við þyrftum að ræða þessi mál. Get ég þá gert það? Getum við þá rætt þessi mál? Ég tek undir þá kröfu sem hefur komið hér fram um það að alla vega hæstv. ráðherrar þeirra málaflokka sem þetta frumvarp hefur bein áhrif á komi hingað og taki þátt í þessari umræðu og útskýri fyrir okkur í fyrsta lagi hvers vegna og hvernig þau komast að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir að þarna sé verið að valda miklum skaða á þeirra málaflokkum, að þetta sé ásættanlegt.