Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er enn að fjalla um greinargerð frumvarps um mannréttindasáttmála Evrópu af því að hann er grundvöllurinn að því sem við erum að fjalla um hérna. Með leyfi forseta er ég að fjalla um IV. kaflann, almennt um gildi mannréttindasáttmála Evrópu í aðildarríkjum. Eins og áður hefur komið fram eru samningurinn um verndun mannréttinda og mannfrelsis og samningsviðaukar við hann þjóðréttarsamningar. Þjóðréttarsamningur er yfirleitt skilgreindur á þann veg að hann sé samningur milli tveggja eða fleiri ríkja eða milli ríkis og alþjóðastofnunar sem er ætlað að leiða af sér réttindi og skyldur innbyrðis milli samningsaðilanna, ríkjanna eða stofnananna án þess að hann þurfi að hafa bein áhrif á réttarstöðu þegna viðkomandi ríkja. Þjóðréttarsamningur skuldbindur yfirleitt ríki sem á aðild að honum gagnvart viðsemjanda sínum til að efna hann eftir því sem leiðir af efni samningsins. Með nokkurri einföldun má þannig segja að mannréttindasáttmáli Evrópu feli í sér skuldbindingar milli aðildarríkjanna innbyrðis um að þau muni virða, innan yfirráðasvæða sinna, þau mannréttindi sem þar er kveðið á um.

Til að tryggja þetta frekar hafa aðildarríkin enn fremur skuldbundið sig að þjóðarétti til að hlíta úrskurðum ráðherranefndar Evrópuráðsins og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Í mannréttindasáttmálanum segir ekki berum orðum hvað aðildarríki eigi að gera til að efna skuldbindingar sínar um verndun þargreindra mannréttinda, en ganga má að því vísu að aðildarríkin hafi með fullgildingu sáttmálans tekið á sig skuldbindingar um að sjá til þess að gildandi réttarreglur á yfirráðasvæði þeirra, landsréttur þeirra, sé í samræmi við þennan þjóðréttarsamning. Mannréttindasáttmálinn byggir í raun á því að það sé lagt á vald hvers aðildarríkis hvernig þetta verður framkvæmt og það ráðist af stjórnskipunarreglum þess og réttarskipan að öðru leyti.

Í þeim ríkjum sem fullgilt hafa mannréttindasáttmála Evrópu hafa verið farnar ólíkar leiðir til að efna þjóðréttarskuldbindingar sem þau hafa tekið á sig með þessum hætti. Þetta stafar ekki síst af því að reglur þessara ríkja eru ólíkar um það hvert sambandið er milli þjóðréttarsamninga sem þau gangast undir og landsréttar þeirra. Í sumum ríkjum er byggt á því að reglur þjóðréttarsamninga þeirra verði sjálfkrafa hluti af landsrétti þeirra en sú skipan er yfirleitt tengd við kenningar um svokallað eineðli þjóðaréttar og landsréttar. Í öðrum aðildarríkjum að mannréttindasáttmálanum er hins vegar gengið út frá því að þjóðaréttur og landsréttur séu tvö aðskilin réttarkerfi þar sem þjóðarétturinn gildir milli ríkja innbyrðis en landsrétturinn innan yfirráðasvæðis hvers ríkis um sig. Þar sem þessi viðhorf eru ríkjandi er byggt á kenningum um svokallað tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar en af því leiðir að reglur þjóðaréttar verða ekki hluti af landsrétti nema þær séu lögfestar sérstaklega samkvæmt stjórnskipunarreglum viðkomandi ríkis.

Skipan í anda kenninga um eineðli þjóðaréttar og landsréttar er ríkjandi víðast á meginlandi Evrópu. Þannig hefur mannréttindasáttmálinn orðið hluti af landsrétti, t.d. í Frakklandi, Hollandi, Belgíu, Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu, Grikklandi, Tyrklandi og Kýpur. Eftir stjórnskipunarlögum Austurríkis telst sáttmálinn njóta sömu stöðu gagnvart almennum lögum og stjórnarskrá ríkisins. Í nokkrum öðrum ríkjum, t.d. Frakklandi, Belgíu og Hollandi, gengur sáttmálinn fyrir almennum lögum án þess þó að teljast hluti stjórnskipunarlaga. Það er áhugavert að skoða heildarsamhengi þessa sáttmála, hversu mikilvægur hann er fyrir stöðu hvers einstaklings hjá þeim þjóðum sem hafa fullgilt þennan samning. Eins og ég sagði í fyrri ræðu þá gildir hann í raun ekki til að veita hverjum einstaklingi þessi réttindi heldur er þetta frekar kvöð á ríkið sjálft, á stjórnvöld, að tryggja einstaklingnum frelsi frá afskiptum þeirra af þessum réttindum sem eru sett á ríkið frekar en einstaklinginn. — Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá til að ég geti haldið þessari umfjöllun áfram.