Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:20]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir afar áhugaverða og upplýsandi ræðu. Það er einmitt mjög gott að rifja upp að þetta er ekki nýtt frumvarp heldur erum við að sjá það í fimmta skipti. Það gerir það alveg einstaklega sorglegt hversu undarlega illa það virðist vera unnið og nú er meira að segja búið að segja að það verði enn ein útgáfan af því sem við fáum ekki að sjá núna.

Hv. þingmaður vék einmitt að skilvirkni, sem ég hef sjálfur verið svolítið að kalla eftir að fá skýringar á. Mig langaði að spyrja hvort hún sé sammála því að þessi róbotíska nálgun á skilvirkni sem birtist í frumvarpinu, sem er skilvirkni sem er án mannúðar, án tillits til þarfa einstaklinga, án tillits til þess hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir börn og fjölskyldur og fyrir fólk í leit að vernd hér, hvort þessi róbotíska nálgun, þessi róbotíska skilvirkni sé ekki fulldýru verði keypt. Að það sé gert með því að fórna þeirri mannúð, þeirri mannlegu nálgun, sem ætti einmitt að vera leiðarljósið í þeim breytingum sem við gerum.

Mig langar þá að spyrja: Tekur þingmaðurinn undir að við megum ekki fórna mannúð fyrir skilvirkni? Það er allt of dýru verði keypt.