Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:25]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir andsvarið. Ég tek undir þetta, að hvað svo sem skilvirkni ræður þá er ekki að sjá miðað við umsagnir að þessi skilvirkni geti yfir höfuð náðst. Mig langar þá að víkja að því sem er hitt vandamálið við þetta stórfurðulega frumvarp, þ.e. allt skort á samráði, hvort ekki hefði farið betur að tryggja aðkomu umsagnaraðila og tryggja aðkomu þingmanna að því að móta þetta frumvarp, því að það er svo sannarlega þörf á breytingum í þessum málaflokki. Hefði ekki verið betra að einmitt hlusta meira í stað þess að vaða bara af stað?