Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Held ég áfram með söguna endalausu sem er upptalningin á því hvað er hræðilegt við þetta frumvarp. Það er nefnilega svo margt að stundum veit ég ekki hvar ég á að byrja og sannarlega veit ég ekki enn þá hvar ég á að enda. Ég ætla aðeins að rifja upp það sem ég var að tala um hérna rétt áðan. Ég var að fara yfir athugasemdir Rauða krossins á Íslandi við þá ótrúlega gölnu hugmynd sem sett er fram í b-lið 8. gr. frumvarpsins sem veitir Útlendingastofnun heimild til að vísa fólki þangað sem Útlendingastofnun finnst sanngjarnt og eðlilegt að fólk dveljist og vísa umsókninni sem sagt frá. Það er ekki skoðað hvort þú sért flóttamaður heldur er bara sagt: Nei, heyrðu, mér finnst bara að þú eigir að vera í Kólumbíu. Mér finnst það sanngjarnt og eðlilegt. Ókei. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerði athugasemdir við ákvæðið og sagði það ekki í samræmi við flóttamannasamninginn og ekki í samræmi við þau grundvallarviðmið sem þurfa að gilda, auk þess sem það virðist vera búið að koma því á hreint að það er röng hugtakanotkun í frumvarpinu þar sem talað er um fyrsta griðland. En þetta er ekki fyrsta griðland vegna þess að oft er um að ræða ríki sem umsækjandi hefur aldrei komið til. Þarna er um að ræða nokkuð sem er kallað öruggt þriðja ríki, sem er kaldhæðnislegt vegna þess að í ákvæðinu er ekki gerð krafa um að ríkið, sem Útlendingastofnun gæti þótt sanngjarnt og eðlilegt að viðkomandi yrði vísað til, sé á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki, sem væri nógu slæmt. Alla vega. Ég ætla aðeins að halda áfram að reyna að færa umsögn Rauða krossins á Íslandi um þetta ákvæði yfir á nógu skýrt mannamál til að firra alla þingmenn þeirri afsökun að þeir hafi ekki skilið hvað þeir voru að samþykkja. Með leyfi forseta:

„Í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga“ — þ.e. ákvæðið sem gerir þá kröfu að ef fólk getur flutt sig innan síns heimaríkis og sé öruggt þá sé það ekki flóttamenn — „segir m.a. að við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði í eigin heimaríki sem talið er öruggt samkvæmt ákvæðinu skuli tekið tillit til ýmissa þátta sem ekki séu tæmandi taldir, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun og að við matið skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í framkvæmd hefur einnig verið lögð rík áhersla á að umsækjandi eigi félagslegt bakland á því svæði hvar honum er ætlað að setjast að. Engin slík sjónarmið eru rakin í frumvarpinu.“

Ég ætla aðeins að koma með endurtekningu á endursögn minni á þessu. Það er sem sagt ekki verið að skoða umsókn viðkomandi. Segjum að einstaklingur sé frá Sýrlandi. Það er ekki verið að skoða hvort viðkomandi geti mögulega verið öruggur á einhverju svæði innan Sýrlands heldur er verið að senda viðkomandi til ríkis sem getur mögulega verið minna öruggt fyrir viðkomandi en heimaríkið sem viðkomandi er að flýja. Það er ekki skoðað vegna þess að við erum hér að vísa umsókninni frá öllum frá og við ætlum bara að vísa þér eitthvert og engar kröfur um það í hvaða aðstæður er verið að senda fólk eða hvernig það smellur við aðstæður þar. Og aðspurð um þetta halda frumvarpshöfundar því bara fram að Útlendingastofnun sé treystandi til að vera ekkert að senda fólk í eitthvað sem er ekki í samræmi við hagsmuni þess. En við sem höfum starfað í málaflokknum í talsverðan tíma vitum betur og ég get alveg farið yfir dæmi um það máli mínu til stuðnings hér síðar í þessari umræðu.

Ég held áfram í umsögn Rauða krossins þó að ég sé reyndar að falla á tíma. Með leyfi forseta:

„Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu segir að við mat á því hvað teljist sanngjarnt og eðlilegt samkvæmt hinum nýja d-lið skuli m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu. Getur ákvæðið þannig komið til skoðunar þegar umsækjandi hefur ekki dvalið í ríkinu en hefur náin fjölskyldutengsl við það, s.s. þegar maki umsækjandans er ríkisborgari þess og getur á þeim grundvelli fengið dvalarleyfi. Rauði krossinn telur að við gerð frumvarpsins hafi verið lögð óeðlileg áhersla á tengsl umsækjenda við mögulegt móttökuríki fremur en vernd flóttamanna. Rauði krossinn telur ótækt að atriði á borð við tengsl við ríki sem umsækjandinn hefur aldrei komið til geti orðið grundvöllur að synjun á að taka umsókn til efnismeðferðar.“

— Þá er ég fallin á tíma. Ég óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá.