Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:04]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er gjarnan talið lögum um útlendinga til tekna að þau hafa verið unnin í þverpólitísku samráði og byggi á mikilli sátt sem myndaðist bæði í því starfi og hér í þingsal. Hér fyrir helgi fór ég aðeins yfir þá sögu, hvernig hún þróaðist síðan í framhaldi af gildistöku laganna. Mig langar aðeins að rifja það upp áður en ég held áfram umfjöllun minni hér í dag.

Það er kannski ekki úr vegi að hverfa aðeins aftur til umræðunnar um heildarendurskoðunina fyrst vegna þess að á lokametrum umfjöllunar um frumvarpið um útlendinga sem varð að lögum þá lagði hluti þingmanna, fulltrúar í allsherjar- og menntamálanefnd, fram breytingartillögu varðandi gildistöku laganna þannig að á meðan megnið af lögunum tók gildi 1. janúar 2017 þá voru tvær greinar sem skyldu taka gildi strax við samþykkt laganna, það var hálfu ári fyrr, í júní 2016. Þarna er annars vegar er um að ræða 114. gr., sem fjallar um skyldu til að tilkynna sig eða dveljast á tilteknum stað, og hins vegar 115. gr., sem fjallar um handtöku og gæsluvarðhald. Þannig að tvær íþyngjandi greinar voru teknar fram fyrir röð. Það lá á að gera þær að lögum strax til að væri hægt aðeins að herða meðhöndlun hluta útlendinga. Þetta snýr mjög mikið að t.d. umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þarna var ekki full samstaða. Þessari tillögu greiddu ekki atkvæði sín þingflokkur Pírata og þingflokkur Vinstri grænna og hluti af þeim sem skipuðu þingflokk Bjartrar framtíðar greiddu tillögunni ekki atkvæði sitt og reyndar sátu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hjá við þessa afgreiðslu. Þetta er bara til að rifja upp fyrir okkur þá tíð sem ég held að hafi nú eiginlega runnið sitt skeið á enda fljótlega eftir gildistöku þessara laga þegar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gat rúmað svo fjölbreyttar skoðanir að sum í þeim hópi gátu litið útlendingalögin líkum augum og meiri hluti þingheims.

Svo kom að því að afgreiða lögin í heild sinni og þá voru nú ekki allir þingmenn á græna takkanum. Það voru tveir Sjálfstæðismenn sem fundu sig ekki í því að styðja þetta mál, sátu hjá. Það vill svo til að annar þeirra er aðstoðarmaður dómsmálaráðherra þessa dagana. Þannig að hin þverpólitíska sátt var ekki tær græn, það var alveg meiningarmunur, kannski eðlilega af því að þetta er málaflokkur sem er þannig að þótt við reynum kannski að ná sátt um hann á þann hátt að við gerum einstaklingana sem um er fjallað helst ekki að einhverju pólitísku bitbeini þá er alveg eðlilegt að okkur greini á um það hvernig við eigum að taka á móti fólki, hversu mikla þjónustu við viljum veita fólki, hversu lengi sú þjónusta á að gilda. Það sýnir sig náttúrlega í því frumvarpi sem við fjöllum um hér í dag að munurinn þarna getur verið gríðarlegur, eins og t.d. það að hluta þingheims virðist þykja ásættanlegt að svipta umsækjendur um alþjóðlega vernd allri grunnþjónustu 30 dögum eftir synjun um umsókn. Hluta þingheims finnst ásættanlegt sá litli en vaxandi hópur fólks, sem er búinn að fá endanlega synjun en ekki er hægt að vísa úr landi, lendi t.d. í því að börn þeirra fæðist ríkisfangslaus í landi sem hefur einsett sér að berjast gegn ríkisfangsleysi á heimsvísu. Þannig að meiningarmunur er enn til staðar. En meira af sagnfræðilegri yfirferð hér síðar.