Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að játa að í síðustu ræðu hafði ég Sjálfstæðisflokkinn fyrir rangri sök þegar ég fjallaði um breytingartillögu sem kom hér á lokametrum við afgreiðslu þess frumvarps sem varð að lögum nr. 80/2016, um útlendinga, vegna þess að tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu þeirrar tillögu eins og þingflokkar Pírata og Vinstri grænna. Píratar og Vinstri græn gerðu þetta vegna þess að tillagan kom, að því er virtist, dálítið eins og skrattinn úr sauðarleggnum, var ekki í fullu samræmi við það sem sátt hafði náðst um hér í þingsal heldur vildu tillöguflytjendur, sem voru úr Sjálfstæðisflokki og Framsókn, taka íþyngjandi ákvæði laganna og flýta gildistöku þeirra umfram öll önnur ákvæði laganna, að 114. og 115. gr., sem snúast annars vegar um skyldu til að tilkynna sig eða dveljast á tilteknum stað og um handtöku og gæsluvarðhald, skyldu taka gildi strax við samþykkt laganna á meðan restin af lögunum myndi taka gildi hálfu ári síðar.

Ég leit bara yfir grófa samantekt á atkvæðunum og sá þar tvö gul, þ.e. tvær hjásetur Sjálfstæðisflokksins, og svo þegar ég fór að skoða samhengið betur þá áttaði ég mig á því að þetta voru fýlupokarnir tveir sem sátu hjá við allt málið vegna þess að þeim þótti það opna landið of mikið fyrir útlendingum. Þannig að hjáseta þeirra við þessa breytingartillögu var bara hluti af heildarhjásetu þeirra við allt frumvarpið en ekki til marks um einhvers konar ást þeirra á mannúð eins og ég var svo vitlaus að halda áður en ég kafaði aðeins dýpra ofan í málið. Ég bið forseta að afsaka þetta.

En þessi breytingartillaga sýnir náttúrlega taktík sem Sjálfstæðisflokkurinn beitti síðar — ég kem kannski ekki að því í þessari ræðu heldur á eftir þegar ég rifja meira upp — þ.e. að vera hluti af einhverju heildarsamkomulagi en slíta sig svo frá og reyna að koma einhverjum öðrum breytingum að, þannig að sáttin hefur kannski alltaf verið krafa sem hefur staðið upp á okkur hin en Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fylgt henni mikið sjálfur. Ég held að það sé ákveðið trend sem við sjáum í þessum málum.

Fyrsta frumvarpið til breytinga á lögunum var síðan, eins og ég nefndi, samþykkt rétt fyrir jól 2016, stuttu áður en lögin tóku gildi. Það snerist um það að setja inn bráðabirgðaákvæði um að kæra fresti ekki réttaráhrifum brottvísunar í því sem kallað er bersýnilega tilhæfulaus umsókn frá öruggu ríki, hvort tveggja mjög erfið hugtök. Það voru ýmsir aðilar sem bentu á, bæði við afgreiðslu frumvarpsins í heild og síðan við afgreiðslu þessa breytingafrumvarps, að eðlilegra væri að kæra frestaði réttaráhrifum brottvísunar í öllum tilvikum. Það væri hin eðlilega meginregla til að fólk ætti raunverulegan kost á því að sækja réttlæti í þessum málum. Með því að geta vísað fólki frá landi þá sé kerfið í rauninni að standa í vegi fyrir því að fólk geti fullnýtt áfrýjunarheimildir sínar.

Þessa breytingu studdi meiri hluti þingheims en hjásetur voru aftur hjá öllum þingflokki Pírata og öllum þingflokki Vinstri grænna, auk þess sem Samfylking og Viðreisn voru að hluta til í hjásetu. Hér sáum við teiknast upp ákveðnar blokkir. Það eru ákveðnir flokkar sem fylgjast kannski að þegar kemur að því að setja spurningarmerki við breytingar sem stíga í áttina frá réttindum fólks á flótta, sérstaklega. Í þessum tveimur dæmum, þ.e. breytingartillögurnar við heildarendurskoðunina og bráðabirgðaákvæði sem var samþykkt stuttu fyrir gildistöku, voru Píratar og Vinstri græn hönd í hönd í því að benda á að þetta væru kannski óæskileg skref.