Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:14]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var að tala um 6. gr. frumvarpsins, minnir mig, og umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands varðandi það lagaákvæði. Í samhengi við 6. gr. og umsagnirnar sem hafa borist varðandi það þá finnst mér mikilvægt að taka smá umfjöllun um reglur stjórnsýslulaga. Ég er náttúrlega búin að fara í ítarlega greiningu á því hvernig þetta samræmist ekki andmælareglu stjórnsýslulaga og réttmætisreglu og meðalhófsreglu. En ég ætla bara að byrja frá grunni, ég tala um lögmætisregluna.

Lögmætisregla stjórnsýsluréttar felur í sér að allar stjórnvaldsathafnir verða eiga sér viðhlítandi réttargrundvöll. Í samræmi við það er lögmætisreglan skilgreind á neikvæðan hátt, þ.e. stjórnvaldsathöfn þarf lagaheimild ef viðhlítandi réttargrundvöllur er ekki til staðar. Hún skiptist í heimildarþátt og formþátt lögmætisreglunnar — við erum náttúrlega búin að fara yfir þetta, virðulegi forseti. Maður lærir þetta bara á fyrstu önninni sinni í lögfræði en mér sýnist ég þurfa að rifja þetta upp fyrir hæstv. dómsmálaráðherra. Heimildarþáttur lögmætisreglunnar er líka kölluð lagaáskilnaðarreglan. Hún felur í sér að ef stjórnvald fer út fyrir heimildina sína með stjórnvaldsfyrirmælum — stjórnvöld þurfa að vera með lagastoð fyrir þeim ákvörðunum er þau taka varðandi rétt eða skyldur borgara.

Já, virðulegur forseti. Við getum alveg rökstutt þetta þannig að þegar þessum íþyngjandi lagaheimildum og lagaákvæðum verður beitt þá sé vissulega lagastoð fyrir þessari ákvörðun sem hefur verið tekin. Samt sem áður veit ég ekki hversu marktæk þessi lagastoð er þegar kærunefnd útlendingamála, sem er úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi, hefur komist að þeirri niðurstöðu að nákvæmlega þessi aðgerð sé ólögmæt. Virkar þetta bara þannig? Virkar þetta í alvörunni bara þannig að ef, segjum einhver nefnd eða eitthvert stjórnvald kemst að þeirri niðurstöðu að einhver aðgerð sé ólögmæt, sé svarið bara: Heyrðu, ókei, þá setjum við þetta bara í lög? Við lögfestum þetta bara. Já, einmitt, frábært.

En að því sögðu þá ætla ég að tala um formþátt lögmætisreglunnar, en það er þegar stjórnvaldsfyrirmæli brjóta í bága við lögin, eða það kemur til skoðunar hvort stjórnvöld hafi brotið gegn lögmæti stjórnsýsluréttar, en hún kveður á um að allar stjórnvaldsathafnir verði að eiga sér viðhlítandi réttargrundvöll. Já, svona er þetta bara.

En svo ég taki gott dæmi, virðulegi forseti, þá er hér hæstaréttardómur. Þetta er einn af hæstaréttardómunum sem ég er alltaf að setja hlutina í mannlegt samhengi við. Þetta er rosalega frægur dómur. Ég veit að allir hér inni hafa heyrt um hann. Þetta er Framadómurinn. Þar var ekki talið að reglugerð, sem setti það að skilyrði fyrir útgáfu leigubílstjóraleyfis að bifreiðarstjóri væri meðlimur í tilteknu stéttarfélagi, ætti sér næga stoð í lögum, enda var ekki vikið að skyldu til þátttöku í slíku félagi í lögunum og ráðherra veitti því aðeins almenna reglugerðarheimild. Þetta reynir á heimildarþátt lögmætisreglunnar. Þetta er rosalega frægur dómur þegar kemur að heimildarþætti lögmætisreglunnar. Það var bara ekki næg lagastoð fyrir þessari reglugerðarheimild.

Svo ég vísi í svipaðan dóm má nefna hæstaréttardómurinn Köfun í Silfru þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að athöfnin að kafa í Silfru eða Þingvallavatni eða hvað sem þetta var, hafi í rauninni ekki verið ólögmæt út af því að reglugerðarákvæðið var sett með stoð í lagaákvæði sem veitti samt ekki heimild fyrir reglugerð. Þetta var rosalega fyndið og skemmtilegt. Þar förum við inn á það að þegar kveðið er á um refsiaðgerðir í reglugerð þá verðum við að sjá til þess að öll skilyrði lögmætisreglunnar séu uppfyllt. En ég kem kannski inn á það í næstu ræðu.

Virðulegi forseti. Ég sé að ég að renna út á tíma og ég er ekki einu sinni búin að reifa hæstaréttardóminn um eignaauka. Það er líka mjög frægur dómur sem ég hlakka til að reifa hér fyrir ykkur og setja hlutina í aðeins meira samhengi. En ég hef ekki lokið máli mínu, því miður, og óska þess að verða sett aftur á mælendaskrá.