Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:25]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Herra forseti. Eins og við sem höfum hér talað úr ræðustól höfum ítrekað bent á þá eru lausnirnar og skilvirknin og raunverulega það sem þarf að breyta allt að finna í umsögnunum um frumvarpið. Það eru sérfræðingarnir, það er fólkið sem þekkir málaflokkinn best. Ef eitthvert ætti að leita eftir lausnum þá er það þar. En úr því að ekki virðist hafa verið tekið mikið mark á þessum umsögnum við vinnslu frumvarpsins þá held ég áfram að gera grein fyrir þeim hér í þeirri veiku von að innihald þeirra skili sér þangað sem það þarf að komast. Mig langar, með leyfi forseta, að grípa hér niður í umsögn Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi:

„Solaris eru hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Tilgangur samtakanna er að bregðast við þeirri neyð sem hælisleitendur og flóttafólk býr við víða á Íslandi, sem birtist meðal annars í bágum aðstæðum, félagslegri einangrun og skorti á aðgengi að nauðsynlegri þjónustu, eins og til dæmis heilbrigðisþjónustu. Markmið samtakanna er að þrýsta á umbætur í málefnum hælisleitenda og flóttafólks á Íslandi og að stuðla að því að mannúð og réttlæti sé haft að leiðarljósi í málaflokknum. Solaris berjast fyrir bættri stöðu flóttafólks og hælisleitenda hér á landi og fyrir því að mannréttindi þeirra og önnur grundvallarréttindi séu virt. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga var lagt fram á 149. Löggjafarþingi en fékk ekki framgang. Frumvarpið var endurflutt á 150. löggjafarþingi (þskj. 1228, 171. mál) og í þriðja sinni á 151. löggjafarþingi (þskj. 1029, 602. mál) en náði heldur ekki fram að ganga. Á 152. löggjafarþingi (þskj. 837, 595. mál) var frumvarpið endurflutt í fjórða sinn í breyttri mynd. Frumvarpið náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt í fimmta sinn.

Solaris, ásamt fjölda samtaka og einstaklinga, hefur áður gert athugasemdir við fyrrgreind frumvörp til laga og lýst yfir áhyggjum af þeirri þróun sem endurspeglast í tilraunum stjórnvalda til þess að breyta lögunum sem fela í sér að þrengja töluvert að fólki á flótta, skerða mannréttindi þeirra og tækifæri þeirra til þess að fá alþjóðlega vernd á Íslandi. Hið sama er uppi á teningnum nú.

Töluvert magn af innihaldi frumvarpsins felur í sér enn frekari tilraunir til þess að brjóta á mannréttindum fólks á flótta, þrátt fyrir að nýlegar athugasemdir í mannréttindaskýrslu Sameinuðu þjóðanna taki sérstaklega fram að íslenska ríkið sé skuldbundið til að tryggja réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og fólks á flótta, aðgengi barna á flótta til menntunar og rétt til þátttöku í íslensku samfélagi (Human Rights Review: The Working Group on the Universal Periodic Review, 2021). Frumvarpið er birtingarmynd kerfisbundins rasisma og mismununar á Íslandi og stefnu stjórnvalda sem felur í sér að veita sem fæstum á flótta alþjóðlega vernd á Íslandi. Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk vilja sérstaklega gera eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið …“

Nú geri ég mér grein fyrir að hér eru áheyrendur á ystu nöf að heyra við hvaða greinar Solaris mun gera athugasemdir, en ég geri mér líka fyllilega grein fyrir því að ræðutíminn er engan veginn fullnægjandi og ég mun ekki ná að gera þessum greinum nokkurt skil á þeim tíma sem ég hef eftir. Ég óska þess vegna eftir því að forseti bæti mér aftur á mælendaskrá og mikið hlakka ég til að gera þessum athugasemdum Solaris betri skil en gert var við vinnslu frumvarpsins.