Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:18]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var hér að tala um grundvallarreglur í stjórnsýslurétti af því að það mál sem við erum að tala um hér í dag er nátengt stjórnsýslurétti, að sjálfsögðu. Í 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga nr. 80/2016, um útlendinga — ég held að ég sé að fara rétt með þetta — er tekið fram að þeir sem fara með framkvæmd þessara laga séu Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, sýslumaður, þjóðskrá og (Gripið fram í.) önnur bær stjórnvöld, eitthvað svoleiðis — ég er ekki alveg að fara rétt með síðasta partinn. Þannig að öll þau sem fara með þetta vald geta talað sem stjórnvald að einhverju leyti.

Svo langar mig fara í gegnum grundvöllinn, beinagrindina fyrir stjórnvaldsákvarðanir, en til þess að skoða það hvort einhver ákvörðun er tekin af stjórnvaldi eða ekki þá skoðar maður bara hver er að taka ákvörðunina. Oftast er rosalega auðvelt að fara í lögin og sjá bara í lagabálkinum sem verið er að ræða hvort það teljist vera stjórnvald. Í þessu tilfelli fer maður bara í lög um útlendinga og skoðar 1. mgr. 4. gr. laganna og það eru bara þessir aðilar sem ég var að telja upp; jú, þeir eru stjórnvald. Þar af leiðandi er þetta stjórnvaldsákvörðun.

Næst skoðar maður hvort manneskjan sem er verið að taka ákvörðun í málinu hjá teljist vera aðili eða ekki. Ef þú ert aðili áttu rétt á því að kynna þér gögnin, þú átt rétt á því að tjá þig um málið, þú átt rétt á því að fá ákvörðunina birta sem er tekin í þínu máli og síðan áttu rétt á því að fá ákvörðunina rökstudda og þú getur kært þessa ákvörðun sé kæruheimild fyrir hendi, sem er hér í þessum lögum og líka í lagafrumvarpinu sem um er að ræða hér. Í þessu ferli, þegar viðkomandi er aðili máls, á hann alltaf rétt á umboðsmanni eða aðstoðarmanni. Síðan ber að fara í gegnum gildissvið stjórnsýslulaga en tíminn leyfir kannski ekki alveg að ég fari í gegnum það þannig að ég ætla bara að fara beint í gegnum málshraðaregluna, sem er óskráð meginregla stjórnsýsluréttar. En skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er hægt að kæra áður en máli lýkur ef það dregst á langinn. Síðan er auðvitað líka ferli varðandi það að reikna út frestinn, en útreikningur frests virkar þannig að sá dagur sem frestur er talinn frá skal ekki teljast með innan frestsins og endi frestur á almennum frídegi lengist hann til næsta virka dags. — Virðulegi forseti. Af hverju erum við ekki með þessar reglur varðandi frídaga? Aftur að málinu: Að öðru leyti ber að telja þá frídaga með sem eru innan frestsins þegar hann er reiknaður.

Síðan er önnur óskráð meginregla, rannsóknarreglan, en það eru veigamikil rök fyrir því að þetta lagafrumvarp sem við erum að ræða hér fari í bága við hana út af því að þegar Útlendingastofnun tekur ákvörðun í niðurstöðu máls einhvers þá mega þau taka þessa ákvörðun án þess að öll gögn liggi fyrir af því að þau telja að það muni breyta niðurstöðu málsins. En þá förum við bara aftur í réttmætisregluna og þá er stjórnvaldið sem er að taka ákvörðunina á þessum grundvelli bæði að taka hana á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða og fara í bága við rannsóknarreglu stjórnvalda sem er óskráð en samt meginregla.

Síðan þarf að hugsa út í andmælaregluna, sem er líka óskráð meginregla. Mig minnti samt að hún væri í 14. gr. stjórnsýslulaga, ég veit það ekki, ég þarf bara að rifja þetta upp. En það eru náttúrlega nokkur skilyrði sem þarf til að virkja andmælaréttinn, þ.e. að málsaðila þarf að vera ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafi bæst við í málinu hans og að telja verði að upplýsingarnar séu honum í óhag. Sem sagt, ef þetta er íþyngjandi mál þá á alltaf að telja að upplýsingarnar séu honum í óhag. Og svo að lokum þurfa skilyrði þess að þær hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins að vera uppfyllt.

Það eru auðvitað undantekningar frá þessari reglu, m.a. ef afstaða og rök aðila liggja fyrir í gögnum málsins, þá þarf ekki að veita honum frekara færi á að tjá sig um efni málsins. Ég held að það gerist mjög sjaldan þegar um er að ræða ákvörðun um að veita einhverja vernd hér á landi, enda er þetta bara rosalega íþyngjandi ákvörðun, alveg sama hver niðurstaðan verður í málinu. Ég held því að það reyni ekki rosalega mikið á þessa undantekningu í framkvæmd er varðar þennan málaflokk.

— Virðulegi forseti. Ég er einu sinni ekki nálægt því að vera búin að fara í gegnum þetta. Ég óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá.