Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:14]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Það fylgir því ákveðinn kostur að það séu svona fáir á mælendaskrá; það er styttra milli ræðna og þá missir maður síður þráðinn. Ég var að tala um b-lið 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um heimild til handa Útlendingastofnun til þess að vísa fólki þangað sem henni dettur í hug. Ég var að benda á að með þessu ákvæði sé ekki verið að leysa nein vandamál eða bæta skilvirkni heldur þvert á móti er verið að auka vandamálið vegna þess að það er verið að stækka þann hóp einstaklinga sem er búinn að fá synjun hér á landi og ekki er hægt að flytja. Ástæðan er sú að þarna er verið að heimila Útlendingastofnun að vísa fólki til landa þar sem það hefur hvorki heimild til komu eða dvalar.

Ég ætla aðeins að fara í umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um þessi ákvæði vegna þess að hún er mjög upplýsandi. Nú er ég bara búin að lesa ensku útgáfuna en er að fara að lesa upp íslenska þýðingu þannig að ef ég fer eitthvað að stama þá er það líklega af því að þýðingin kemur mér eitthvað skringilega fyrir sjónir. En þetta er nú löggiltur skjalaþýðandi þannig að við skulum við bara að láta vaða. Með leyfi forseta:

„Umsækjendur með tengsl við annað land („fyrsta land þar sem alþjóðleg vernd er veitt“ eða öruggt þriðja land).

Tillagan miðar að því að takmarka möguleikann á því að umsóknir umsækjenda sem hafa „sérstök tengsl“ við annað land séu teknar til efnislegrar skoðunar, svo fremi umsækjandinn [óttast] ekki ofsóknir í því landi. Umsóknir einstaklinga sem hafa þegar öðlast „virka alþjóðlega vernd“ í öðru landi áður en þeir komu til Íslands verða ekki heldur teknar til efnislegrar meðferðar. Í tillögunni er engin skilgreining á [þeim forsendum sem] liggja að baki skilgreiningu á landi sem „fyrsta landi þar sem alþjóðleg vernd er veitt“.

Flóttamannastofnunin gengst við því að það skapast áskoranir fyrir Ísland og alþjóðlega verndarkerfið í heild sinni þegar hælisleitendur og flóttamenn fara frá einu landi yfir í annað. Í sumum tilfellum fara flóttamenn og hælisleitendur áfram til annars lands til að sækja um alþjóðlega vernd sem er í raun ekki í boði á þeim stað sem þeir flúðu fyrst til; eða til að hafa aðgang að lifibrauði, fyrir tilstilli mannúðaraðstoðar eða eftir öðrum leiðum; til að komast aftur til fjölskyldumeðlima sem þeir höfðu aðskilist frá eða til að finna einhverjar varanlegar lausnir. Í sumum tilfellum flytja þeir kannski áfram til annars lands í því augnamiði að nýta sér fjárhagsleg tækifæri eða meðhöndlunarstaðla sem eru, eða talið er að séu, hærri. En ef hælisleitendur sækja ekki um alþjóðlega vernd í ríki þar sem þeir höfðu virkt tækifæri til að gera það, þá [skapar það tvíverknað] í stjórnsýslunni, tafir og aukið álag á móttökugetu og hæliskerfi í ólíkum löndum.

Þess vegna kemur fram í New York-yfirlýsingunni fyrir flóttamenn og farandverkamenn frá árinu 2016 að hægt sé að setja reglugerðir um það hvort flóttamenn fái að sækja um vernd í þeim löndum sem þeir vilja, að því gefnu að þeir hafi aðgang að alþjóðlegri vernd og njóti hennar annars staðar. Því má vísa flóttafólki til baka eða senda þá áfram til ríkis þar sem þeir höfðu hlotið, hefðu getað hlotið eða geta, að fengnu formlegu samkomulagi, hlotið alþjóðlega vernd. Flóttafólk hefur ekki skilyrðislausan rétt til að velja sér „hælisland“ en taka ber fyrirætlanir þeirra með í reikninginn.“

Ég ætla aðeins að staldra við hér. Þetta er ágætisþýðing en hún er kannski eilítið klaufaleg, sem skýrist líklega af því að um afar tyrfinn lögfræðilegan texta er að ræða þegar upp er staðið þar sem mat Flóttamannastofnunar er í sjálfu sér lögfræðilegt. Það sem er verið að segja hér er nefnilega áhugavert að því leytinu til að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna leggst ekki gegn því að ríkið setji reglur um að vísa megi fólki sem sækir um vernd eitthvað til baka, það megi vísa því annaðhvort til baka til ríkis þar sem það hefur komið áður, til fyrsta griðlands, eða til annars öruggs ríkis þar sem eðlilegt og sanngjarnt er að fólk dvelji.

Það er því augljóst, eins og ég hef ítrekað sagt í þessari pontu, að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er enginn anarkisti. Hún er ekki róttæk í sínum skoðunum. Hún lítur á þetta mjög raunsæjum augum. Þrátt fyrir það gerir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna alvarlegar athugasemdir við ákvæðið eins og því er stillt upp í því frumvarpi sem er hér til umræðu. Það er nefnilega þannig að til þess að hægt sé að vísa umsækjanda um alþjóðlega vernd eitthvert annað þá eru fyrir því ákveðin skilyrði. Þau eru ekki einu sinni það ströng. — Þar sem ég er fallin á tíma mun ég gera grein fyrir þeim skilyrðum í umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hér rétt á eftir.