Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég held áfram að ræða harðneskju ríkisstjórnarinnar sem hefur byrjað að aukast í þessum málaflokki á undanförnum misserum og birtist svo ágætlega í þeirri stærstu fjöldabrottvísun Íslandssögunnar sem boðuð var í vor, sem minnkaði síðan eitthvað eftir því sem á leið og endaði með að vera áform um að koma í kringum 40 umsækjendum um alþjóðlega vernd upp í þotu til Grikklands. Þau fundust nú ekki öll þannig að eitthvað voru þau færri sem flutt voru úr landi. En þessi brottvísun vakti hörð viðbrögð, ekki síst vegna þess að lögreglan þótti ganga nokkuð harkalega fram þó að hún hafi á einhvern stórundarlegan hátt náð að snúa því yfir í það að það væri mótmælendum að kenna hversu harkalega hún gekk fram, þegar hún var í bréfaskriftum við umboðsmann Alþingis um þessa framkvæmd. En látum það liggja á milli hluta. Á þeim tíma sagðist t.d. hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem er nú alltaf að reyna að troða sér inn í umræðu um þennan málaflokk þótt ekki vilji hann þekkjast boð um að taka þátt í umræðu um þetta frumvarp, að hann hefði gert alvarlega athugasemd við þessa brottvísun á sínum tíma og þætti þetta mjög leiðinlegt mál og væri ekki sammála því sem byggi þarna baki. Hann hljómaði svona almennt eins og hann væri einhvern veginn ótengdur þeim hluta ríkisstjórnarinnar sem hefði staðið að baki þessari brottvísun, eins og hver ráðherra væri bara einvaldur á sínu sviði. Nema hvað, í hópi þeirra sem brottvísað var þarna í haust var t.d. Hussein Hussein og fjölskylda hans, sem héraðsdómur komst síðan að 12. desember — þá lá fyrir niðurstaða héraðsdóms um að úrskurður kærunefndar útlendingamála um að vísa fjölskyldunni úr landi, að vísa henni aftur til Grikklands, skyldi felldur úr gildi.

Þegar hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra var spurður af hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma hvað honum þætti um þessi málalok, þá sagði hann að hann leyfði sér að fagna að þetta væri niðurstaða héraðsdóms af því að honum þætti eðlilegt að tekið væri tekið tillit til fötlunar fólks í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ég held reyndar að fötlun þessa einstaklings hafi ekki verið meginviðfangsefni héraðsdóms heldur sú staðreynd að hann bar ekki ábyrgð á töf eigin máls, þvert á það sem ráðherra og ráðuneyti héldu fram. Þarna sýndist okkur félags- og vinnumarkaðsráðherra virka í alvöru nokkuð feginn yfir þessari niðurstöðu, að búið væri að aftengja þá sprengju sem Jón Gunnarsson virðist oft vera inn í þetta stjórnarsamstarf, búið að aftengja þá sprengju tímabundið í þessu máli. En síðan líður ekki langur tími þar til hæstv. dómsmálaráðherra ákveður að áfrýja þessari niðurstöðu héraðsdóms. Það er eitthvað sem gerist sárasjaldan í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og eitthvað sem kallar á umfjöllun í næstu ræðu.