153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

aðbúnaður fíkniefnaneytenda.

[15:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar líka að vekja athygli á því að þetta eru einstaklingar sem flestir eru á framfærslu hjá sveitarfélaginu. Það er rétt. Það er verið að taka af þessum einstaklingum um 140.000 kr. á mánuði fyrir pínulitla herbergiskytru. Þetta fólk á ekki neitt. Spurningin hlýtur að vera þessi: Hvað tekur það langan tíma, hæstv. ráðherra, að koma með einhverjar raunverulegar úrlausnir, raunverulega bragarbót fyrir þetta fólk? Er það ekki á okkar forræði hér, kjörinna fulltrúa og hæstv. ríkisstjórnar, að vernda alla þegna landsins? Getum við verið þekkt fyrir það að skilja þetta fólk svona gjörsamlega eftir hjálparlaust, heimilislaust, allslaust og fordæmt í ofanálag?