153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

hækkun vaxta og hagræðingaraðgerðir.

[15:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Verðbólgan annars staðar er að lækka og við sjáum það líka, af því að hér er verið að nefna skuldasöfnun, að við erum enn með hæstu vaxtagjöldin í Evrópu. Gleymum því ekki. Hæstv. forsætisráðherra svarar ekki því hvaða hagræðingaraðgerðum við megum vænta núna á næstu dögum. En við skulum líka hafa það hugfast að matarkarfan er einn stærsti útgjaldaliður heimila í landinu, einn stærsti útgjaldaliðurinn, og fólk er á sama tíma að kljást við það hvernig það á að borga af óverðtryggðu lánunum sínum, hvort það eigi að fara yfir í verðtryggð lán af því að það getur ekki farið í aðra gjaldmiðla eins og fyrirtækin, mörg hver. Hjá þessum hópi er matarkarfan að hækka rosalega í verði og ríkisstjórnin á stóran þátt í því, annars vegar með agaleysi í ríkisfjármálum og kyndir þannig undir verðbólguna en líka hinu, að ríghalda í kerfi, ríghalda í ákvarðanir sem gætu m.a. hjálpað til með að lækka verðið á matarkörfunni. Hæstu liðirnir í matarkörfunni sem eru að hreyfast upp á við eru þeir sem lúta að einokun á markaði. (Forseti hringir.) Það eru þeir sem eru undanþegnir samkeppni á markaði hér á Íslandi þannig að ríkisstjórnin getur auðvitað gert fullt. Ég óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra komi hingað upp og segi okkur hvaða (Forseti hringir.) hagræðingaraðgerðum við megum búast við á næstunni til þess að ná einhverjum tökum á verðbólgunni. Þeirra er ábyrgðin.