153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

inngrip stjórnvalda í kjaradeilur.

[16:08]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Stærstu samtök láglaunafólks á Íslandi eru í verkfalli og eru að berjast fyrir því að fá mannsæmandi kjör til að geta lifað af í mikilli verðbólgu, verðlagshækkunum og húsnæðisvanda. Aðspurð sagði hæstv. forsætisráðherra í viðtali við Ríkisútvarpið í síðustu viku að hún hefði engin áform uppi um að stíga inn í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins og það væri farsælast að deilur leystust við samningaborðið. Þar sagði hæstv. forsætisráðherra einnig, með leyfi forseta:

„Ég hef alltaf stutt baráttu launafólks fyrir bættum kjörum, en þessi deila hefur verið þung og stór orð látin falla sem ég tek ekki endilega undir þótt ég styðji baráttu launafólks fyrir bættum kjörum eðlilega.“

Forseti. Nú hefur stjórn Samtaka atvinnulífsins samþykkt einróma að leggja það til við aðildarfyrirtæki sín að setja allsherjarverkbann á Eflingu. Atkvæðagreiðslan er þegar hafin. Staðan er sem sagt orðin sú að Samtök atvinnulífsins eru að beita algerum neyðarúrræðum, að þeirra eigin sögn stærstu og öflugustu verkfærunum í verkfærakistunni, á verkfall sem hefur staðið í rúma fimm daga, þar af tvo daga þar sem hlé var gert á verkfallinu. Gleymum því ekki. Þetta er barátta láglaunafólks, fólksins sem hefur lægstu launin á íslenskum vinnumarkaði og þetta eru aðferðirnar sem fulltrúar atvinnulífsins ætla að beita. Sáttasemjurum ríkisins hefur ekki gengið vel að leysa málið og nú virðist stefna í nánast fordæmalausar aðgerðir gegn lægst launaða fólkinu í landinu. Í ljósi þessarar stöðu spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji ekki rétt að leita leiða til að leysa þessa deilu með aðkomu stjórnvalda, rétt eins og hún gerði hér fyrr í vetur vegna kjaraviðræðna Samtaka atvinnulífsins við önnur félög á almennum vinnumarkaði.