153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

fyrirspurn um lækkun tolla og gjalda á innfluttar matvörur.

[16:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég held, með fullri virðingu fyrir okkur öllum hinum, að það sé enginn annar þingmaður sem hafi eins lítinn beyg gagnvart því að svara fyrirspurnum frá þingmönnum og hæstv. ráðherra. En ég legg áherslu á að ég vil um leið þakka hæstv. ráðherra fyrir það að vilja svara þessari fyrirspurn, eins og ég segi mun það hafa þýðingu í baráttu okkar við að finna út til hvaða aðgerða stjórnvöld geta gripið. Þetta er hluti af þeirri mynd. Þetta er ekki lausnin en þetta er hluti af þeirri mynd sem við gætum fengið inn í þetta púsl; hvernig lækkum við verðið á matarkörfunni? Það mun hjálpa íslenskum heimilum. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið vel í að ræða þessi mál sem fyrst og ræða þá um leið þessa skriflegu fyrirspurn mína til munnlegs svars.