Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi.

[16:25]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að bregðast skjótt við og eiga við okkur orðastað um þá mikilvægu atvinnugrein sem sjókvíaeldið er. Það liggur skýrt fyrir, eins og við þekkjum, að margvíslegar og alvarlegar brotalamir eru í umgjörð greinarinnar. Þar má nefna slælegt eftirlit, veika stjórnsýslu og hagsmunaárekstra, svo að fátt eitt sé nefnt. Þetta er auðvitað ekki boðlegt þegar undir er atvinnugrein sem skilar milljarða tugum í þjóðarbúið og heldur uppi verðmætri atvinnu á svæðum sem hafa átt undir högg að sækja.

Frá því að þessir þrír stjórnmálaflokkar sem mynda ríkisstjórn landsins hófu samstarf sitt hefur greinin vaxið ævintýralega mikið. Ársframleiðsla í greininni, og þá er undir bæði sjóeldi og landeldi, var tæp 15.000 tonn árið 2017 og árið 2021 var framleiðslan komin upp í 45.000 tonn. Ef við færum okkur enn aftur í tímann þá er staðan þannig að sjókvíaeldi rúmlega tífaldaðist frá árinu 2014. Undir venjulegum kringumstæðum gæfu þessar tölur fullt tilefni fyrir sitjandi ríkisstjórn til að berja sér á brjóst og guma sig svolítið af hressilegri atvinnuuppbyggingu og gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið en í þessu tilfelli eru engar slíkar aðstæður fyrir hendi, einfaldlega vegna þess að það er niðurstaða Ríkisendurskoðunar í svartri skýrslu að samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarksávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda. Hér er fast að orði kveðið, stefnulaus uppbygging, samþjöppun eignarhalds og rekstur á svæðum sem vinnur gegn því að þjóðin njóti hámarksávinnings af einni mikilvægustu atvinnugreininni sem starfrækt er í landinu. Allt þetta gerist án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda.

Þetta þýðir auðvitað á mannamáli að stjórnvöld hafa á síðustu árum verið steinsofandi á verðinum á meðan greinin hefur vaxið stjórnsýslu og eftirlitsstofnunum yfir höfuð. Ég vil því spyrja hæstv. matvælaráðherra hver viðbrögðin séu við þessum mikla áfellisdómi Ríkisendurskoðunar yfir vinnubrögðum og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar á síðustu árum. Er það hreinlega boðlegt að tryggja ekki betur vandaðri umgjörð um greinina en raun ber vitni?

Þegar kemur að eftirliti með greininni er pottur víða brotinn. Lagabreytingar, sem gerðar voru bæði árin 2014 og 2019, leiddu ekki til skilvirkara eftirlits eða leyfisveitinga. Eftirlitið er of háð hagsmunaaðilunum sjálfum og ljóst að það þarf bæði að einfalda og samþætta betur á milli stofnana, einkum Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar, og að rukkað sé samkvæmt kostnaði. Eftirlitið hefur ekki átt roð í þessa miklu og stefnulausu uppbyggingu, svo að ég vitni aftur í fyrrgreind orð. Hvernig hyggst hæstv. matvælaráðherra bregðast við þessu, bæði til skemmri og lengri tíma, og hvernig er hægt að tryggja að eftirlitsaðilar geti verið sjálfstæðir í sínu eftirliti og óháðir fyrirtækjunum sjálfum?

Ein af frumskyldum stjórnvalda á hverjum tíma er að eigum og gæðum þjóðarinnar, verðmætum sem landsmenn eiga saman, sé ekki úthlutað tilviljunarkennt eða án eðlilegrar gjaldtöku. Gildir þar einu hvort verið sé að selja banka, orku eða innheimta gjöld vegna veiða í sjó eða vegna aðgengis fiskeldisfyrirtækja að takmörkuðum gæðum í eigu þjóðarinnar. Við hljótum alltaf að gera þá kröfu að ríkisstjórn á hverjum tíma tryggi slíkt og að skýrt sé hvað sé raunverulegt auðlindagjald og því ekki ruglað saman við aðra gjaldtöku eða kostnað greinarinnar. Við sáum það í fjárlagaumræðunni fyrir jól að tregðulögmálið er sterkt þegar kemur að eðlilegri gjaldtöku í þessari grein sem öðrum. Ég vildi spyrja hæstv. matvælaráðherra: Hvernig getur framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku tryggt réttlátt afgjald á sama tíma og það gerir fiskeldi sem atvinnugrein kleift að dafna? Hvernig er hægt að tryggja réttlæti í gjaldtökunni gagnvart almenningi og koma þannig í veg fyrir að þessi vaxandi grein verði andlag áratuga deilna, líkt og við þekkjum annars staðar frá? Þetta er algjört grundvallarmál og grundvallaratriði sem verður að liggja fyrir fyrr en síðar. Í sex ár höfum við upplifað tómlæti gagnvart þessu hjá núverandi ríkisstjórn, frá því að samstarf þessara þriggja flokka hófst, og það er orðið tímabært að það liggi fyrir hvernig gjaldtöku eigi að vera háttað og að gjaldtakan renni að stórum hluta til nærsamfélaganna.

Það hefur vakið talsverða furðu, eftir útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar, að Hafrannsóknastofnun hefur þurft að sækja um fjármagn í umhverfissjóð sjókvíaeldis vegna burðarþolsmats og til að sinna vöktun. Þetta þýðir að stofnunin er í samkeppni við aðra um fjármuni til að sinna sínum lögbundnu verkefnum. Það er varla ofmælt að það er frekar einkennileg ráðstöfun að lögbundið hlutverk sé háð því að senda inn umsókn um fjármagn í samkeppnissjóð og krossa svo fingur í þeirri von að umsóknin verði samþykkt. Hvað finnst ráðherra um slíkt fyrirkomulag, og er það ekki dæmi um sofandahátt stjórnvalda að standa ekki betur að fjárveitingum til þeirra stofnana sem sinna mikilvægu hlutverki gagnvart fiskeldinu? Fiskeldi er auðvitað gríðarlega mikilvæg grein, eins og ég vona að allir geri sér grein fyrir og skilji, og ég vona svo sannarlega að hæstv. matvælaráðherra og reyndar ríkisstjórnin (Forseti hringir.) öll meðtaki þau skilaboð sem í skýrslunni eru og geri eitthvað með þann alvarlega texta.