Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi.

[17:04]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit með sjókvíaeldi er mikilvægt plagg sem við alþingismenn þurfum að nýta. Undanfarið hafa margir bent á að úrbóta væri þörf, jafnt einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög sem koma að sjókvíaeldi og í þingflokki Framsóknar hefur hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir verið óþreytandi að vekja athygli á ýmsu því sem betur má fara varðandi umgjörð atvinnugreinarinnar. Skýrslan dregur einmitt þetta sama fram og bendir á tækifæri til úrbóta, bæði innan núverandi lagaramma og þörf fyrir lagabreytingar. Ómarkviss stjórnsýsla bitnar á atvinnuveginum og samfélögunum þar sem fiskeldi byggist nú upp. Margir opinberir aðilar koma að sjókvíaeldi, m.a. í gegnum strandsvæðaskipulag og hafnarsjóði sveitarfélaganna og að leyfisveitingum og eftirliti koma Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og Hafrannsóknastofnun. Greinin greiðir gjald í umhverfissjóð fiskeldis og gjald vegna fiskeldis í sjó sem ætlað er að standa undir ýmsum verkefnum tengdum greininni, auk leyfis- og eftirlitsgjalda. Það þarf að samhæfa vinnu milli þessara stofnana og stjórnsýslustiga. Það er mikilvægt að atvinnugreinin standi undir fjármögnun rannsókna sem nauðsynlegar eru vegna leyfisveitinga, vöktunar og eftirlits. Á sama hátt er nauðsynlegt að tryggt sé að þær stofnanir sem hafa hlutverki að sinna fái fjármagn til lögbundinna verkefna af þeim gjöldum sem greinin skilar til ríkissjóðs, svo sem vegna burðarþolsmats Hafró. Þjóð sem byggir tilveru sína á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda verður bæði að tryggja fjármagn til rannsókna og vöktunar á áhrifum auðlindanýtingar hvers tíma (Forseti hringir.) en verður líka að halda stöðugt áfram að bæta þekkingu sína á náttúrunni óháð núverandi nýtingu. Það byggir undirstöðu til framtíðar.