Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

Vestnorræna ráðið 2022.

662. mál
[18:54]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir framsöguna og vil bara að nefna það stuttlega að mér finnst þetta mjög merkilegur vettvangur og mikilvægur upp á menningarleg tengsl við okkar nágrannaríki og sameiginlega hagsmuni. Það er eitt sem ég hnaut um og langaði að spyrja aðeins út í, ef þingmaðurinn gæti varpað frekara ljósi á það, en það varðar frásögnina af ársfundinum sem var haldinn á Grænlandi 30. og 31. ágúst þar sem Jenis av Rana frá Færeyjum talaði um að í kjölfar makríldeilunnar þá hefðu markaðir Evrópusambandsins lokast og Færeyingar hefðu orðið mjög háðir fisksölu til Rússa. Þeir ætluðu sér væntanlega að endurskoða það í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu en eins og sjá mátti af fréttum nú í desember varð ekki af því heldur ákváðu þeir að endurnýja. Ég fór aðeins að skoða söguna og rifja upp þessa makríldeilu sem við vorum aðilar að líka og ég sé ekki betur en að við höfum verið, alla vega svona framan af, mestmegnis með Færeyingum í liði, ef svo má segja, í þessari deilu. Ég varð svolítið forvitinn um þetta þegar ég sá þetta. Af hverju lokuðust markaðir gagnvart Færeyingum en ekki t.d. okkur? Ég hef alla vega ekki séð umræðu um að það hafi gerst.