Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:10]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir framsöguna og viðleitnina. Þingmaðurinn rakti hér hvernig framlög hafa snarhækkað á undanförnum árum, sérstaklega var það milli 2017 og 2018 sem þau voru hækkuð verulega, með ákvörðun sem allir flokkar á þingi stóðu að nema Flokkur fólksins og Píratar. Þau fóru úr 286 milljónum í 648 milljónir á milli 2017 og 2018, voru svo 744 árið 2019 og svo 728 árin 2020–2022. Má segja að þau hafi lækkað aðeins í raun og veru af því að það hefur nú verið einhver verðbólga þarna á milli. Svo núna síðast í fjárlögum var ákveðið að lækka niður í 692 milljónir, um sirka 5%. Ef við miðum við fast verðlag, miðum við hver framlögin voru 2017, þá ættu þau að vera, ef allt væri óbreytt, 373 millj. kr. núna. Þannig að hækkunin er 85,5%, eða næstum því tvöföldun á nokkrum árum. Þannig að maður skilur viðleitnina, að þingmenn komi með smá skaðaminnkun á móti, reyni aðeins að lækka. Ég veit samt ekki alveg með aðferðafræðina. Mér finnst eins og það hafi verið farið þarna inn í núverandi fyrirkomulag eins og það er og skoðaðar þær tölur sem þar eru og þær stilltar af. Kannski hefur það í raun verið markmiðið í sjálfu sér frekar en að fara í einhverja grunnskoðun á forsendum frumvarpsins, enda var farið yfir það á síðasta kjörtímabili og samþykkt í mjög góðri sátt þingsins við endurskoðun, en það var stillt svolítið af og bætt inn bæði nýjum markmiðsákvæðum og síðan atriðum eins og grunnstyrkjum og sérstökum styrkjum vegna kosningabaráttu.

Hér í þessu frumvarpi er lagt til að grunnstyrkir séu lækkaðir og styrkir vegna kosningabaráttu afnumdir. Í hinu stærra samhengi þá eru þetta ekki miklar upphæðir. Þetta er kannski svona álíka og lækkunin sem kom inn milli ára núna í fyrra og þetta árið. Við erum að tala um nokkur prósent í heildina. Þetta hittir náttúrlega minni flokka harðar fyrir en stærri. Mér finnst þetta svolítið ganga gegn því markmiði laganna sem var sett inn í með lagabreytingu 2018 þar sem er talað um að eitt af markmiðunum sé að tryggja starfsskilyrði. Það skil ég svolítið þannig að þar sé verið að tala um að markmið styrkjanna sé svona fyrst og fremst að búa til algjöran grunn þar sem flokkar hafi í gegnum ríkisstyrkina nægilegan styrk og bolmagn til að reka sig, eða einhvern grunn, eitthvert lágmark, og að þá sé það hlutverk ríkisins að gæta ákveðins jafnræðis þar og leggja jafnan grunn. En svo hafi flokkar náttúrlega getu til að sækja sér umfram það eins og þeir vilja, að sjálfsögðu innan þeirra marka sem eru sett um hámarksframlög, sem er náttúrlega verið að leggja til að hækka hérna líka. En hérna er fyrirkomulagið þannig að langmestu styrkirnir eru línulegir. Þeir eru í hlutfalli við þingstyrk, þær prósentur sem fólk getur sótt sér í kosningum. Svo er líka stór hluti af þessu með því skilyrði að flokkar séu á þingi fyrir, sem þýðir að þeir fá líka greidda aðstoðarmenn úr ríkissjóði. Þannig að ég velti svolítið fyrir mér markmiðinu með þessum lögum og hvernig núverandi fyrirkomulag, sem þetta frumvarp er í rauninni ekki að hrófla við í grunninn, mætir þessum markmiðum.

Svo líka, af því að ég hef ekki gefið mér tíma til að kafa ofan í mig sérstaklega, vil ég velta fyrir mér, eins og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir kom fram á í sinni framsögu, samanburðinum við önnur ríki. Samkvæmt samanburðarrannsóknum þingmannsins eru ríki almennt að gera þetta og jafnvel kannski í auknum mæli. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Er það gert með sama hætti og hér, að styrkirnir séu í hlutfalli við atkvæðamagn? Svo má líka spyrja sig að því: Hverjir þeir eru hlutfallslega miðað við t.d. útgjöld ríkissjóðs eða einhverjar aðrar hagtölur sem hægt er notast við í samanburði milli landa? Mér finnst þetta í rauninni mikilvæg spurning, sérstaklega í ljósi þess hversu mikið þessi framlög hafa hækkað í heildina. Er markmiðið með þessu að búa til einhvers konar jafnan samkeppnisgrunn, algjöran grunn sem hægt er að spyrna sér upp frá? Hugsunin með því að veita flokkum styrk, jafnvel þó að þeir komist ekki á þing, held ég að sé pínu þannig að þótt þú komist ekki inn á þing þá hefurðu sannað gildi þitt með því að ná ákveðnum fjölda atkvæða og þá geturðu kannski notað það til að byggja upp næst. Eða er markmiðið að gera flokkana í rauninni alveg háða hinu opinbera, sem mér fannst eiginlega að vera meginuppistaðan í gagnrýni hv. þingmanns á kerfinu, að flokkar eru svo háðir hinu opinbera. En það finnst mér vera til komið vegna þess hvað styrkirnir eru háir í heildina og hvað þetta er samkvæmt ársreikningum flokkanna hátt hlutfall af tekjum flokkanna, meira að segja hjá Sjálfstæðisflokknum, sem er sá flokkur sem nær, og hefur alltaf sögulega séð ná að sækja hvað mest frá einstaklingum og lögaðilum, hann fær tvo þriðju af tekjum sínum frá hinu opinbera.

Þetta er bara svolítið það sem ég vildi varpa fram. Og aftur, þó að það sé kannski ekki megintilgangurinn með þessu frumvarpi, hvort það þurfi ekki að taka þessa umræðu við í svolítið víðara samhengi: Hver eru raunveruleg markmið þessa styrkjakerfis?