Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

atkvæðagreiðsla um birtingu greinargerðar um Lindarhvol.

[14:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Athugasemdir hv. þm. Brynjars Níelssonar og Hildar Sverrisdóttur við fundarstjórn forseta urðu til þess að ég sá mig knúinn til að ræða aðeins um fundarstjórn forseta vegna þess að ég fékk ákveðna hugljómun, ef svo má segja. Nú átta ég mig á því, í framhaldi af athugasemdum hv. þingmanna, að þeir, eins og hæstv. forseti, hafa að undanförnu verið að leita sífellt nýrra leiða til að afsaka það að þetta gagn sé ekki birt þrátt fyrir að samþykkt hafi verið í forsætisnefnd á sínum tíma að það skyldi birt og þrátt fyrir að höfundurinn hafi kallað eftir því að það yrði birt. Þá spyr maður sig: Hvers vegna er alltaf verið að leita nýrra leiða til að þetta fáist ekki birt? Segjum bara sem svo að einhver maður úti í bæ hefði sent bréf á Alþingi með sínum athugasemdum. Af hverju fengist það ekki birt, skoðanir, mat þess manns? Hvað er svona hættulegt við þetta skjal að hæstv. forseti Alþingis reynir í sífellu að finna nýjar leiðir til að koma í veg fyrir birtingu þess? Menn geta þá gagnrýnt það þegar það liggur fyrir. En hvers vegna má það ekki koma fram?