153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

hækkun verðbólgu.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Launa- og tekjujöfnuður — ég hef ekki séð nokkurn mann kaupa sér mat eða borga leigu fyrir það. Það er það sem fer í vasann, peningarnir sem þau fá borgaða á hverjum mánuði, þau nota það til að borga leigu og reyna að eiga fyrir mat.

Voru lausnir okkar verðbólguhvetjandi? Er það verðbólguhvetjandi að hækka persónuafslátt og taka persónuafsláttinn af forríku fólki sem er með milljón eða meira í mánaðarlaun? Til hvers þarf þetta fólk 60.000 kr. persónuafslátt? Færum hann niður til þeirra sem virkilega þurfa á að halda. Er það verðbólguhvetjandi? Nei. Við ættum líka að huga að því að við höfum stóra fjármuni útistandandi sem eru skatttekjur í lífeyrissjóði. Við getum skattað inngreiðslur í lífeyrissjóði og nýtt þær líka sem verður ekki heldur verðbólguhvetjandi. Nei, það eina sem honum dettur í hug er að það að hjálpa fátækasta fólkinu og unga fólkinu okkar sé verðbólguhvetjandi, að reyna að finna lausnir á því þannig að það geti staðið undir sínum skuldbindingum og fólk eigi fyrir mat og eigi fyrir leigu.