Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:04]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er rangt hjá hæstv. forseta að fyrirspurn mín fjalli ekki um stjórnsýslu Alþingis og fyrir þessu eru þrjár ástæður. Í fyrsta lagi er greinargerð setts ríkisendurskoðanda miðpunkturinn í sérstöku stjórnsýslumáli hjá forsætisnefnd. Um þetta er ekki deilt. Í öðru lagi liggur fyrir að forsætisnefnd hefur þegar tekið ákvörðun um að greinargerðin skuli birt á grundvelli upplýsingalaga með vísan til þess að gildissvið upplýsingalaga tekur til stjórnsýslu Alþingis. Í þriðja lagi ætla ég að vitna hér orðrétt í bréf sem þáverandi forseti Alþingis sendi stjórn Lindarhvols ehf. þann 4. júní 2001, með leyfi forseta:

„Málið er til skoðunar hjá forsætisnefnd Alþingis á þeim grundvelli að skjalið sé hluti af stjórnsýslu þess.“

Þetta sýnir að forsætisnefnd sjálf hefur fjallað um birtingu skjalsins út frá þeirri forsendu að skjalið sé beinlínis hluti af stjórnsýslu Alþingis.

Að framansögðu virtu er ekki nokkur leið, virðulegi forseti, að halda því fram með góðu móti að fyrirspurn mín lúti ekki að stjórnsýslu Alþingis. Fyrirspurnin uppfyllir sannarlega skilyrði 3. mgr. 8. gr. þingskapalaga. Ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en að þingmenn úr öllum flokkum standi hér í dag með rétti mínum til að bera fram þessa fyrirspurn, að þingmenn úr öllum flokkum standi með þeim skýlausa (Forseti hringir.) rétti allra alþingismanna sem tryggður er í 3. mgr. 8. gr. þingskapa.